138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stundum held ég að við hv. þm. Pétur H. Blöndal hugsum líkt og komumst að svipuðum niðurstöðum. Ég deili þeirri sýn hv. þingmanns að þegar litið er í baksýnisspegilinn hefði ég talið það mjög mikið áfall á þeim tíma, segjum á fyrstu mánuðum ársins 2008, að einhver eða allir bankarnir hefðu flutt úr landi miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir. Ég hygg að ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið ljóst eða ekki mátt vera ljóst að það væri nauðsynlegt að einhverjir bankanna flyttust úr landi. Ég þori ekki alveg að fara með það en ég held að það hafi, eins og hv. þingmaður nefnir, hlotið að takast á mismunandi sjónarmið og hagsmunamat. Við verðum auðvitað að hafa í huga, þegar við skoðum þessar spurningar, hvaða upplýsingar menn höfðu á þeim tíma og hvaða mat menn gátu lagt á þær. Ég held að þær hafi í raun og veru verið afar misvísandi.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, sumt af því sem menn hefðu hugsanlega getað gert á þeim tíma hefði sjálfsagt verið stórskaðlegt, t.d. aðgerðir sem beinlínis hefðu gefið í skyn að bankarnir væru ótraustir. Þá hefði hætta getað skapast á því að þeir yrðu beinlínis fyrir áhlaupi innan lands og utan, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur áður vikið að í þessari umræðu.