138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að í þessu máli, með þeim þingsályktunartillögum sem eru komnar fram um ákærur gegn fyrrverandi ráðherrum, sé verið að gera pólitískt uppgjör að sakamáli. Það er rangt að fara inn á þá braut. Sú hætta hefur lengi verið til staðar, hún kom til umfjöllunar hér á þinginu þegar lögin komu síðast til heildarendurskoðunar árið 1962 og í umræðu 1962–1963 og hún var tekin alvarlega þá. Mér finnst að þessi hlið málsins hafi ekki verið tekin alvarlega í umræðunum í þinginu nú, bara alls ekki. Það sem menn óttuðust sérstaklega þegar málið var rætt var að í lögunum er að finna svo matskennd atriði. Það er hægt að finna sér tilefni til að virkja ráðherraábyrgðarlögin vegna ýmissa atburða sem menn, svona eftir á að hyggja, geta sagt að viðkomandi ráðherra hefði átt að bregðast öðruvísi við. Þegar þessi matskenndu atriði voru til umfjöllunar í þinginu kom t.d. fram hjá hv. þingmanni þess tíma, Alfreð Gíslasyni, ég leyfi mér að vitna orðrétt í ræðu hans, með leyfi forseta:

„Ef flokkadrættir miklir yrðu í landinu, harðdrægni ykist í stjórnmálunum, að þá gæti nýr meiri hluti notað sér ákvæði landslaga því frekar sem þau væru matskenndari til þess að ná sér niðri á gömlum andstæðingum.“

Því frekar sem ákvæðin væru matskenndari. Þau ákæruatriði sem við ræðum í þessum þingsályktunartillögum eru öll, nánast hvert og eitt einasta, matskennd atriði. Engu að síður erum við langt komin með seinni umræðuna um þetta mál án þess að því hafi verið gefinn gaumur að þingið er að feta sig inn á nýjar slóðir, slóðir sem menn í þeirri umræðu sem ég vísaði til áðan sögðu nær óhugsandi að þingið færi einhvern tímann inn á vegna þess að með því væri þingræðið komið í algjörar ógöngur. Þá mundi vakna hættan á að slíkt endurtæki sig, að þingmenn fyndu ný tilefni til að draga fram matskennd atriði og gera þau að sakamálum. Mjög athyglisvert er að sama hvar í flokki menn stóðu, sem tóku þátt í umræðunum er lögin komu síðast til endurskoðunar, var samhljómur í málflutningi allra um að þar sem þetta hefði ekki gerst í hálfa öld mætti nú ganga út frá því að menn mundu sýna sömu yfirvegun og skynsemi í framtíðinni.

En ég tel að hér sé, án þess að nein sérstök umræða hafi farið fram um það, verið að víkja af þessari braut. Ég vil taka það fram í þessu samhengi að ég er ekki með þessum málflutningi að halda því fram að ekki geti komið upp brot þar sem ástæða er til þess að virkja ráðherraábyrgðarlögin. Ég er sammála þeim sjónarmiðum sem t.d. hv. þm. Atli Gíslason vísaði til áðan, í greinargerðinni með þeim tveimur frumvörpum sem voru lögð fram, til landsdómslaga og ráðherraábyrgðarlaganna, um að þrátt fyrir að þingræði hefði verið komið á í landinu væri enn þá ástæða til að viðhalda þessum ákvæðum vegna séreðlis ráðherraábyrgðarinnar, að ráðherra færi með slíkt vald og hefði slíkt umboð að ekki hefði verið fjallað um þá ábyrgð sem á gæti reynt í störfum hans með fullnægjandi hætti í almennu hegningarlögunum um brot í opinberu starfi. Sú réttlæting sem fram kom í þeirri greinargerð og þeim umræðum sem fylgdu var að mínu áliti skynsamleg og sýnir fram á að sannarlega geta komið upp tilvik sem réttlæta að ráðherraábyrgðarlögin séu virkjuð. Sem betur fer hefur það ekki enn gerst. Þá er væntanlega spurt: Hvers konar dæmi væri það? Jú, það væri dæmi þar sem fyrir lægi að ráðherra hefði af ásetningi brotið lög. Þeim mun minna mat sem þarf að fara fram á því hvort lög hafi verið brotin, þeim mun skýrara er brotið. En þeim mun meira mat sem þarf að fara fram, eins og ég tel að umræðan hér sýni fram á að þörf sé á í öllum ákæruliðum þessarar þingsályktunartillögu, þeim mun hættulegra er að feta sig inn á þessa braut og þeim mun fjarstæðukenndara er að gera viðkomandi ráðherrum refsiábyrgð vegna þess.

Ég harma að við skulum ekki hafa náð að taka almennilega umræðu um þetta vegna þess að verði þessar tillögur samþykktar verða vatnaskil hér í þingstörfunum. Þá er horfið frá þeirri aldargömlu venju að beita ekki þessum matskenndu ákvæðum. Við hljótum að átta okkur öll á því að jafnvel þótt íslenska efnahagskerfið hafi ekki lent í mörgum álíka áföllum og þeim sem dundu yfir okkur árið 2008 er afar auðvelt að finna ýmis atvik úr íslensku stjórnmálasögunni undanfarin 100 ár þar sem hægt væri að koma fram með matskennd rök um að ráðherraábyrgðarlögin hefðu verið brotin. Það væri hægt. Ég benti á það í blaðagrein sem ég skrifaði í síðustu viku að slíkt væri t.d. hægt að gera vegna starfshátta núverandi ríkisstjórnar, tiltölulega auðvelt. Ég ætla að rekja dæmi sem ég birti í greininni. Það var þegar íslenska fjármálakerfið stóð í annað sinn á tveimur árum frammi fyrir hættu á áfalli. Það gerðist í sumar, 2010. Þá var til staðar raunveruleg hætta á því að bankakerfið færi aftur á hausinn. Það var raunveruleg hætta á því. Hvers vegna? Það var vegna þess að núverandi ríkisstjórn hafði staðið þannig að endurreisn bankanna að lánasöfnin úr gamla bankakerfinu voru flutt yfir í nýja kerfið án alls fyrirvara um framtíðarvirði lánanna. Sem sagt, ef eignirnar mundu reynast mun verðminni en gengið var út frá þegar efnahagsreikningurinn var stofnaður í Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum yrði það vandamál viðkomandi banka og í tilfelli Landsbankans yrði það sérstakt vandamál íslenska ríkisins sem aðaleiganda bankans. Það var sem sagt þannig bundið um hnútana að ekki var hægt að fá leiðréttingu á eignaverðinu ef einhver síðari atvik mundu gerast þannig að gamli bankinn mundi þá bæta við eignina eða koma með viðbótargreiðslu. Meðal mikilvægra eigna í nýju bönkunum voru gengistryggð lán, lán með verðtryggingu sem miðaði við þróun gengisins. Það lá fyrir í rúmt ár að dæmt yrði um lögmæti þessara lána, Hæstiréttur felldi dóm 16. júní í sumar þar sem kveðið var upp úr með lögmæti þeirra.

Þegar litið er til ákæruatriðanna í þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar, þar sem fyrrverandi ráðherrum er gefið að sök að hafa ekki látið framkvæma greiningu á þeirri hættu sem þeir vissu að var til staðar, eins og segir í þingsályktunartillögunni, og þar með bakað sér refsiábyrgð, er með nákvæmlega sama hætti hægt að segja að núverandi ríkisstjórn, þá viðkomandi ráðherrar í sömu embættum, hafi bakað sér refsiábyrgð með því að gera ekki ráðstafanir áður en dómurinn féll. Þetta snýst jú allt um að hafa ekki látið greina ástandið. Viðkomandi kæruliður í þingsályktunartillögunni eins og hún liggur fyrir byggir á því að sérstakt brot sé fullframið við að hafa ekki látið greina ástandið þar sem menn hafi vitað af hættunni og getað, eins og menn vilja meina, gert eitthvað í málinu. Ég ætla ekki að rekja það hér í löngu máli en eftir uppkvaðningu dómsins lá sem sagt fyrir mat frá nefnd um fjárhagslegan stöðugleika frekar en efnahagslegan stöðugleika, sem ég held að hún sé kölluð, að stöðugleiki íslenska fjármálakerfisins væri í uppnámi. Það færi að lokum eftir fordæmisgildi þessa nýja dóms hvort bankarnir mundu hreinlega lifa þetta af. Við erum að tala um að raunveruleg hætta hafi verið á gjaldþroti allra bankanna í sumar.

Nú, til hvers tek ég þetta dæmi? Ég er að reyna að opna augu manna fyrir því að það er alltaf eitthvað að gerast, á vettvangi ríkisstjórnarinnar, sem hægt er að koma eftir á og segja að menn hefðu átt að bregðast öðruvísi við eða gera sérstakar ráðstafanir og að þær hefðu komið að meira gagni en það sem gert var. Það er auðvelt að finna slík mál. Og þetta er eitt þeirra. Ég tek þetta dæmi líka vegna þess að það rímar algjörlega við kæruatriðin í þingsályktunartillögunni. Ég tel að þeir þingmenn sem standa að þessari tillögu séu um leið að segja að núverandi ríkisstjórn hafi brotið ráðherraábyrgðarlögin, þ.e. viðkomandi ráðherrar, þá væntanlega fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, að minnsta kosti, á þessu ári. Ég hef ekki orðið var við mikla umræðu um hvers vegna eigi að láta það mál kyrrt liggja. Ég tel reyndar óréttlætanlegt af þinginu að taka einungis mál sem eru pólitísk hitamál og kæra vegna þeirra en grípa síðan ekki til neinna ráðstafana í sambandi við önnur mál, eins og það sem ég var að rekja, sem hafa ekki farið eins hátt í þjóðfélagsumræðunni.

Við skulum líka hafa annað í huga: Fari það þannig að núverandi ríkisstjórn starfi út fjögurra ára starfstíma sinn þá verður þetta brot sem ég er að gera að umtalsefni, mögulega brot skulum við segja, fyrnt. Það verður fyrnt. Það er því kannski fullt tilefni til þess að fara að ræða strax hvort grípa eigi til einhverra ráðstafana ef það er þá meirihlutavilji þingsins að fara inn á þá slóð. Ég tel að við eigum ekki að gera það, ég tel að við eigum að bera skynbragð á að til að eðlilegur starfsfriður sé á vettvangi stjórnmálanna eigum við fyrst og fremst að byggja á þingræðisreglunni. Þegar menn gerast sekir um einhver afglöp í embættisfærslum sínum eigum við fyrst og fremst að byggja á því að hægt sé að koma þeim frá. Ég treysti því að ekki bara viðkomandi þingflokkar komi aðhaldi og ábyrgð yfir sína eigin ráðherra heldur geti þingið gert það líka. Það eru til úrræði hér á þinginu til að víkja ráðherrum frá og lýsa yfir vantrausti á þá. Það er líka hægt að lýsa yfir vantrausti á heila ríkisstjórn. Við sáum það gerast eftir áföllin 2008. Þá fór af stað atburðarás sem varð ekki stöðvuð og endaði með kosningum. Fjölmargir fyrrverandi þingmenn gáfu ekki einu sinni kost á sér þannig að við erum með í stjórnskipan okkar, kosningalöggjöfinni og þingskapareglunum úrræði sem varða ábyrgð þegar menn standa sig ekki í starfi.

Þess vegna er refsiábyrgðin sem fjallað er um í ráðherraábyrgðarlögunum algert neyðarúrræði í mínum huga, neyðarhemill þegar ráðherra hefur brotið svo gróflega af sér í embætti að þingið getur ekki vikist undan því að koma ábyrgð yfir viðkomandi, með öðrum orðum er ófullnægjandi sem eins konar viðurlög við þeim afglöpum sem átt hafa sér stað að viðkomandi ráðherra láti af starfi eða honum sé vikið úr ráðherraembætti með vantrausti eða að ríkisstjórnin falli. Það sé óviðunandi, það dugi ekki til og það dugi heldur ekki fólkinu í landinu að geta kosið til forustu nýja leiðtoga, heldur sé brotið svo gróft að til viðbótar við þá ábyrgð sem ég er að fjalla um þurfi sem sagt að koma til refsiábyrgðar. Að mínu mati er það einungis í slíkum tilvikum sem til álita kemur að virkja ráðherraábyrgðarlögin.

Ég ætla að láta þetta gott heita um þessa hlið málsins sem mér finnst afar mikilvæg en lítið hefur verið farið inn á í umræðunni almennt.

Síðan er það nefndarálitið sem liggur hér frammi. Það bætir svo sem ekki miklu við það sem kom fram í fyrri umræðu um málið og áður hefur komið fram frá flutningsmönnum tillagnanna, enda er það svo að í þessu þskj. 1519 sem við erum með undir í umræðunni er meira eða minna í öllum stórum köflum vitnað orðrétt í þingsályktunartillöguna sjálfa. Það hjálpar ekki mikið að svara þeim athugasemdum sem fram hafa komið í umræðunum frá einstaka þingmönnum með því að vísa bara aftur í það sem áður var sagt. Hér hefur líka verið vísað til bréfs fyrrverandi utanríkisráðherra, sem er dagsett 24. september, þar sem allir kæruliðirnir eru raktir. Í sjálfu sér er uppistaða bréfsins athugasemdir sem áður hafa komið fram í umræðunni en þar eru líka mjög mikilvægar viðbætur, t.d. það sem fyrrverandi utanríkisráðherra áréttar að hún hafi deilt upplýsingum af þeim fundum sem svo mikið er gert úr í þingsályktunartillögum, ekki bara með þingflokki Samfylkingarinnar heldur á sérstökum fundum með ráðherrunum. Síðan er líka í bréfinu vikið að undirritun vegna lánasamninga við Norðurlöndin og á hvaða forsendum hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra hafi skrifað undir. Því er algjörlega ósvarað, menn verða bara að horfast í augu við það, þeir sem standa að þessum tillögum og hyggjast styðja þær, hvers vegna þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokkum sínum eru undanskildir þessum stóru kæruliðum. Það á ekki bara við um fyrrverandi viðskiptaráðherra sem hefur verið talsvert í umræðunni, heldur líka fyrrverandi félagsmálaráðherra.

Við skulum horfa á þetta eins og það er, ef það er sem sagt tilefni ákæru á hendur fyrrverandi ráðherra fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða til að draga úr stærð Íbúðalánasjóðs og breyta því fyrirkomulagi sem þar var hlýtur sú ákæra að eiga að beinast gegn fyrrverandi félagsmálaráðherra sem bar ábyrgð á sjóðnum. Við lestur rannsóknarskýrslunnar sjáum við líka að ráðherranum var ekki bara kunnugt um það sem sagði í þessum samningi við Norðurlöndin, heldur staðfestir hún eða a.m.k. heldur því fram, sérstaklega í 7. bindinu, ég hygg að það sé í 7. bindi frekar en því 6., að hún hafi verið búin að gera allar ráðstafanir yfir sumarið til að bregðast við þeim kröfum sem sneru að Íbúðalánasjóði og stöfuðu frá Norðurlöndunum, þ.e. ráðherrann sjálfur heldur því fram að hún hafi verið með allt tilbúið og hún segir í skýrslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að málið hafi meira að segja átt að vera á málaskrá þingsins um haustið. Reyndar þegar málaskrá þingsins fyrir haustið er skoðuð finnst málið ekki sem er dálítið einkennilegt og er enn þá óútskýrt. En ráðherrann hefur haldið því fram í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni að hún hafi leyst þetta verkefni og notar það í skýrslutöku til að sýna fram á að það hafi jú verið brugðist við, það sé ekki rétt að ekkert hafi verið að gert vegna Íbúðalánasjóðs. Síðan eru aðrir ráðherrar ákærðir fyrir að ekkert hafi verið gert. Þetta stenst enga skoðun.

Svona er hægt að fara, eins og ég gerði reyndar í ræðu minni við fyrri umræðu þessa máls, yfir hvern og einn ákæruliðinn og rekja hvernig þeir standast ekki nánari skoðun. Mér finnst aðalatriðið vera að þeir sem flytja þessar tillögur hafi ekki fært fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna sú vanræksla og þau mistök sem eru sögð hafa verið gerð af rannsóknarnefndinni teljist vera ásetningur og stórfellt hirðuleysi að mati þingmannanna eins og áskilnaður er um í ráðherraábyrgðarlögunum. Það er nefnilega stór munur á þessu tvennu, þetta er eins og að hafa gert einhver annars flokks mistök annars vegar og hins vegar mjög alvarleg mistök. Það er mikill munur þar á og þegar skoðuð er skilgreiningin á mistökum og vanrækslu, eins og hún er útlistuð í rannsóknarnefndarskýrslunni, verður mönnum þetta mjög ljóst. Það er afar skýrt, sérstaklega er tiltekið af rannsóknarnefndinni að hún eigi einungis við vanrækslu og mistök eins og þau séu skilgreind í lögum um nefndina. Engu að síður er í nær öllum þeim tilvikum þar sem mistök og vanræksla beinist að ráðherrum snúið upp í ásetning og stórfellt hirðuleysi, í nær öllum tilvikum án frekari skýringa.

Hér hefur verið hvað helst deilt um hvort þessi saknæmisskilyrði séu uppfyllt og ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Í raun og veru þarf ekkert að ræða málið frekar eftir að maður kemst að þeirri niðurstöðu. Það þarf í sjálfu sér ekkert að ræða málið frekar ef maður er þeirrar skoðunar að ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi hafi ekki verið til að dreifa.

Ég ætla ekki að gera hin refsiréttarlegu skilyrði um skýrleika refsiheimilda og annað þess háttar að umtalsefni eða réttarfarslegu atriðin um að sakborningar eigi rétt á að bera hönd fyrir höfuð sér áður en ákæra er gefin út og allt það sem snýr að rannsókna málanna. Ég vil bara taka undir það sem segir í umsögn minni hluta allsherjarnefndar til þingmannanefndarinnar þar sem farið er afar skilmerkilega yfir þetta. Það sem skiptir máli þar er að þetta er ekki skýrt, það eru mikil vafaatriði í þessu. En eins og með önnur vafaatriði eru þessar þingsályktunartillögur byggðar á því að vafaatriði séu túlkuð sakborningum í óhag, öfugt við það sem gerist í allri venjulegri refsiréttarframkvæmd.

Um þann þátt þessa máls sem snýr að viðskiptaráðherra sérstaklega er maður settur í dálítið einkennilega stöðu. Ég stend hér sem talsmaður þess að ekki eigi að ákæra neinn, en vegna þess að það eru svo miklar mótsagnir og þversagnir í þessum tillögum þarf einhvers staðar að bera niður og maður lendir í því að taka dæmi sem manni finnst ekki standast nánari skoðun til að sýna fram á veikleika þessa máls. Í tilviki viðskiptaráðherra finnst mér málflutningur þeirra sem að tillögunum standa vera afar veikur og þá er ég sérstaklega að vísa til þess að fulltrúar Samfylkingar í þingmannanefndinni hafa fundið einhverja krókaleið til að koma honum undan ákæru. Það má í sjálfu sér taka undir það, nema hvað mér finnst allar forsendur vera kolrangar. Þær eru allar kolrangar vegna þess að menn hafa algjörlega látið undir höfuð leggjast að taka tillit til ábendinga sem fram hafa komið, t.d. í bréfi frá fyrrverandi utanríkisráðherra, og menn horfa fram hjá því sem er sanngjarnt og eðlilegt að gera kröfur um til viðskiptaráðherra. Allur heimurinn fylgdist með því sem var að gerast í bankaheiminum frá haustinu 2007. Enginn átti frekar að fylgjast með en hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra og, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vék að hér áðan, á algjörlega að skauta fram hjá allri frumkvæðisskyldu ráðherrans við þessar aðstæður? Það liggur fyrir að viðkomandi ráðherra fékk upplýsingar eins og aðrir, það liggur fyrir hvert valdsvið hans var, ekki hefur verið nefnt eitt einasta dæmi um að annar ráðherra hafi farið inn á valdsvið hans og reynt að taka einhverja ákvörðun. Því hefur verið haldið fram að upplýsingum hafi verið haldið frá viðkomandi ráðherra. Hvaða máli skiptir það þegar eldar loguðu um allan fjármálaheim í allri Evrópu? Eitthvert eitt ákveðið tilvik frá því um vorið, að frá Seðlabankanum hafi komið upplýsingar um að einhvers konar míníáhlaup hafi verið gert á Icesave-reikningana. Nefna menn þetta í alvöru sem dæmi um upplýsingar sem hafi gert viðskiptaráðherra ókleift að bregðast við með þeim hætti sem hinum ráðherrunum er í raun og veru öllum gert að sök að hafa ekki gert? Nei, mér finnst það ekki standast skoðun.

Ég er þeirrar skoðunar að enginn fyrrverandi ráðherra eigi að fá á sig ákæru vegna þess sem hér gerðist. Mér finnst þetta pólitíska mál vera gert að sakamáli. Það er dapurlegt fyrir þingið. Við eigum ekki að feta okkur inn á þessa slóð. Við eigum að sammælast um að láta kyrrt liggja. Rannsóknarskýrslan var tímamótaplagg sem við stóðum sameiginlega að, við getum sameiginlega staðið að viðbrögðum við henni og mér sýnist stefna í að við munum gera það, (Forseti hringir.) en við eigum ekki að fara þessa ákæruleið.