138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér er í rauninni tæpt á einum anga aðgerðaleysisins sem við höfum rætt hér áður. Og nú gefst mér þá kannski líka færi til að svara í leiðinni hv. þm. Birni Vali Gíslasyni aðeins skýrar, kannski gerði ég það ekki nógu skýrt áðan.

Rannsóknarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hér hafi ríkt einhvers konar samfélag aðgerðaleysis. Fyrir dómi yrði væntanlega að sanna að þetta aðgerðaleysi hafi verið dæmi um einhverja stórbrotna vanrækslu, menn hafi látið reka á reiðanum og hitt og þetta. Ég held að það sé erfitt vegna þess að ég held að þetta aðgerðaleysi hafi ekki bara byggt á hugmyndafræði heldur byggði það líka á ákveðnum rökum, í svona tilteknum afmörkuðum dæmum sem við verðum að geta lagt fram fyrir landsdómi. Ég held að það hafi jafnvel verið sterk rök fyrir (Forseti hringir.) aðgerðaleysi á ákveðinn hátt eins og hv. þingmaður rakti. (Forseti hringir.) Sá sem hefði skipt sér af hefði fellt bankana.