145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Það hefur lengi einkennt húsnæðismál hér á landi að mikil áhersla hefur verið lögð á séreignarstefnu og þetta frumvarp er framhald á þeirri stefnu. Sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á séreignarstefnuna hefur orðið til þess að hér hefur ekki byggst upp leigumarkaður og húsnæðisöryggi þeirra sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að koma sér þaki yfir höfuðið hefur ekki verið mjög gott.

Nú kemur tillaga fram um að fólk geti notað séreignarsparnað sinn til kaupa á fyrstu íbúð. Öllum gestum sem komu fyrir nefndina bar saman um að það úrræði sem hér er sett fram gagnist helst þeim sem hafa meiri efni og gagnist þeim meira en hinum sem hafa þau ekki.

Ef fólk getur fullnýtt sér heimildina, sem er 500.000 kr. á ári, þarf það að hafa tæpar 700.000 kr. í mánaðartekjur. Þeir sem hafa lægri tekjur njóta ekki skattafsláttarins, geta ekki nýtt sér skattafsláttinn af þessum 500 þús. kr. og þess vegna er þetta eina ferðina enn þannig, eins og hefur einkennt flest verk þessarar ríkisstjórnar, þegar kemur að opinberum fjármálum, að meira er gert fyrir hina efnameiri en hina efnaminni. Sumum finnst það ágætt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki gott.

Það er nauðsynlegt að leggja miklu meiri áherslu á húsaleigumarkað en gert hefur verið undanfarið. Það er ekki bara fyrir hina efnaminni sem við þurfum að leggja meiri áherslu á húsaleigumarkaðinn. Við þurfum að koma upp góðum leigumarkaði þar sem fólk getur leigt sér íbúð á viðráðanlegu verði, leigumarkaði sem ekki er rekinn í gróðaskyni heldur borgi fólk kostnaðarverð og einhverja ábót á það fyrir leiguna. Ég er ekki að tala um að fyrirtæki sem rekin eru í hagnaðarskyni komi upp leigumarkaði heldur þyrftu það að vera fyrirtæki sem kölluð eru á ensku „non profit“-fyrirtæki.

Vissulega voru samþykkt lög í vor um að koma upp almennum íbúðum á leigumarkaði og ætlunin er að byggðar verði 400 íbúðir á ári á næstu árum. ASÍ telur það engan veginn duga og telur að byggja þurfi að minnsta kosti þúsund íbúðir á ári til að við komum á húsaleigumarkaði sem er ekki einungis fyrir þá sem lægri hafa tekjurnar. Lífsvenjur fólks hafa nefnilega líka breyst svo mikið. Ungt fólk kýs að flytja milli landa, það fer til útlanda og er þar í nokkur ár, kemur svo heim og fer svo kannski aftur. Lífsvenjur hafa breyst þannig að ég held að eftirspurnin eftir séreignarstefnunni, ef ég má orða það svo, sé ekki sú sama og áður. Auðvitað eru mjög margir sem vilja frekar eiga sína eigin íbúð og geta greitt sjálfum sér leigu, ef þannig má orða það, en þeir eru líka til, og ég held að sá hópur fari stækkandi, sem kjósa að vera í öruggu húsnæði, geta leigt til langs tíma á viðráðanlegu verði og verið hreyfanlegri; geta tekið þær ákvarðanir í lífinu að fara til útlanda í einhvern tíma eða að nýta peningana til annars en binda þá í steinsteypu. Mér finnst við því þurfa að leggja miklu meiri áherslu á húsaleigumarkaðinn.

En þetta frumvarp snýst um að auðvelda ungu fólki það að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Til þess á það að geta safnað séreignarsparnaði í tíu ár. Fyrir nefndinni kom fram að ýmsir vankantar eru á frumvarpinu. Fyrir utan hina miklu áherslu á séreignarstefnuna eru ýmsir vankantar á frumvarpinu og ýmislegt hefði mátt fara betur hvað varðar vinnubrögð.

Í umsögn BSRB um frumvarpið er bent á þá vankanta sem fylgja því að binda þetta við kaup á fyrstu íbúð. Fjölmargir eiga í vandræðum með að eignast íbúð ef þeir kjósa svo, þó að þeir hafi átt íbúð áður. Fólk getur hafa misst íbúð í skuldaskilum þannig að vandræðin við að eignast íbúð eru ekki bundin við það að eignast fyrstu íbúð. Kannski má hugsa sér að miða við að fólk hafi ekki átt íbúð í þrjú ár eða eitthvað þess háttar, en það er ekki gert hér.

Seðlabanki Íslands tekur út af fyrir sig ekki afstöðu til frumvarpsins en segir það fyrst og fremst snúast um tekjuskiptingu og tilfærslu á tekjum á milli kynslóða. En í greinargerð eða í röksemdum með frumvarpinu er engin tilraun gerð til að meta þau áhrif. Það finnst mér mjög ámælisvert.

Í umræðunni í dag hefur komið fram að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert athugasemdir við að ekki var haft neitt samráð við það. Samt er ljóst að þetta mun hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaganna vegna þess að þau missa tekjur þegar séreignarsparnaðurinn verður gerður skattfrjáls, þau tapa útsvarstekjum vegna þess. Ekkert samráð var haft við Samband íslenskra sveitarfélaga en í greinargerðinni segir að áhrif á sveitarfélögin verði í raun engin þar sem fasteignagjöld og þjónustuskattar muni hækka vegna aukinna umsvifa og vega á móti tekjutapinu. Það eru engir frekari útreikningar um þetta. Þessu er bara skellt fram sisvona. Það finnst mér flaustursleg og óvönduð vinnubrögð og ekki síst í ljósi þess, ég vil leggja áherslu á það í leiðinni, að sveitarfélögunum hefur ekki verið bætt upp það tekjutap sem þau urðu fyrir þegar þessi sérstaka meðferð á séreignarsparnaðinum var innleidd við skuldaleiðréttinguna svokölluðu, þegar skuldir fólks voru leiðréttar með því að hluti fólks mátti borga þær sjálft með séreignarsparnaði. Það var skuldaleiðrétting að leyfa fólki að borga skuldirnar sínar sjálft; vissulega með því að séreignarsparnaðurinn var þá skattfrjáls. Ekki er enn búið að bæta sveitarfélögunum þetta þó að gengið hafi verið eftir því. Það eitt og sér hefur valdið sveitarfélögunum miklum vandræðum, ekki síst sveitarfélögunum hér í nágrenni Reykjavíkur, Kópavogi og þar í kring, en líka Reykjavík og stærri sveitarfélögunum.

Síðan er léttilega skautað, finnst mér, yfir áhrif frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs, en í athugasemdunum segir:

„Þegar allt er lagt saman verður því ekki annað séð en að áhrif aðgerðanna á afkomu ríkissjóðs á tímabilinu 2017–2021 verði tiltölulega lítil. Hversu mikil áhrifin verða af lögfestingu frumvarpsins mun þó einkum ráðast af því hversu mikil þátttakan verður í þessu nýja úrræði og hver þróun vaxtabótakerfisins verður í framtíðinni. Langtímaáhrif úrræðanna eru töluverð en eins og fram hefur komið í greinargerðinni er ekki unnt að áætla þau nákvæmlega þar sem dreifing á tekjutapinu liggur ekki fyrir.“

Virðulegi forseti. Þetta eru bara orð og vangaveltur og engin tilraun virðist gerð til að meta hvað þetta getur verið mikið. Vissulega er hægt að setja upp eitthvert bil — ef þátttakan er svona mikil verða áhrifin þetta mikil — og setja upp sviðsmyndir af því hver áhrifin verða. En það er nákvæmlega engin tilraun gerð til þess í þessu efni.

Það kom greinilega fram í skýrslu frá hæstv. fjármálaráðherra um kynslóðareikninga, sem hann tók saman að beiðni okkar þingmanna Samfylkingarinnar, að það er ekki séríslenskt fyrirbrigði að tekjur yngri aldurshópa hafi dregist aftur úr tekjum annarra aldurshópa síðustu áratugi. Það hefur sýnt sig að það gerist hér og það gerist líka í nágrannalöndunum. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Fólk er lengur í skóla og annað því um líkt. Þegar það er þannig að tekjur yngra fólks eru lægri í samanburði við tekjur eldra fólks — þær eru lægri núna en þær voru fyrir einhverjum árum — leiðir það af sjálfu sér að erfiðara er fyrir yngra fólk að safna sér fyrir útborgun ef það ætlar að kaupa sér íbúð. Það liggur eiginlega í hlutarins eðli.

Þá þarf að mínu mati að hugsa dæmið upp á nýtt, hugsa út fyrir boxið eins og sagt er. Það þarf að nálgast húsnæðisvandræði ungs fólks eftir nýjum leiðum. Tilraun er gerð til þess í frumvarpinu, en mér sýnist hún ekki heppnast. Ekki er tekist á við þann vanda sem blasir við núna. Það tekur tíu ár fyrir þessa leið að þroskast eða bera ávöxt, ef ég má orða það svo, en vandinn er mikill núna þannig að það þarf að hugsa einhverja aðra leið til þess að mæta honum.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram hugmyndir um það hvernig megi gera þetta, kallað það „forskot á fasteign“. Þar er hugmyndin sú að fólk sem á rétt á vaxtabótum geti tekið þær fyrir fram, ef svo má segja, og notað þær fyrir útborgun. Það mundi duga strax. Vissulega fengi fólkið ekki vaxtabætur næstu fimm ár, en það virðist vera stóri vandinn núna að eiga fyrir útborguninni, en greiðsluvandinn er minni ef fólk er komið af stað. Það sýnir sig til dæmis í því, virðulegi forseti, að fólk er að borga himinháa leigu. Ef það gæti greitt útborgun og kæmist af stað með eigið húsnæði yrði greiðslubyrðin af lánum væntanlega lægri en ungt fólk er núna að borga í leigu. Þá ætti fólk að geta ráðið við það þó að það hafi fengið vaxtabæturnar fyrir fram. Fólk spyr: Hvað er verið að leggja til? Er verið að leggja til að vaxtabætunar verði teknar fyrir fram og svo lendi fólk í vandræðum vegna þess að um er að ræða fólk sem annars fengi vaxtabætur? Nei, við erum að leggja það til að hjálpa fólki með útborgunina og síðan ræður fólk við greiðslubyrðina. Það er hægt að gera svo góðan samanburð á því núna, með því að bera saman hvað fólk borgar í leigu og hvað það þyrfti að borga ef það hefði átt fyrir útborgun og væri að borga af lánum. Það er út fyrir boxið. Það mundi leysa vandann strax sem frumvarpið gerir ekki.

Hugmyndin sem við setjum fram er auk þess þannig að hún gagnast fyrst og fremst þeim sem hafa lægri tekjur. Tillögurnar miða að því að þeir sem nú fá vaxtabætur geti nýtt sér þetta úrræði þveröfugt við það frumvarp sem við tölum um hér sem nýtist fyrst og fremst þeim sem betur hafa það, þeim sem betur eru settir, þeim sem hafa hærri tekjur, þeim sem búa við þær aðstæður að foreldrar eða aðrir geta hjálpað þeim.

Virðulegi forseti. Því miður er frumvarpið, eins og svo margt annað sem kemur frá þessari ríkisstjórn, fyrst og fremst fyrir þá sem betra hafa það í samfélaginu og ekki fyrir hina sem þurfa á aðstoð að halda. Ég tel að frumvarpið leysi ekki þann vanda eða sé þeirrar gerðar að ég vilji styðja það.