138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er undarleg framsetning hjá hv. þingmanni. Ég bendi honum á að lesa álit um tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum frá meiri hluta allsherjarnefndar sem ég á aðild að og skrifa undir þar sem farið er rækilega yfir þau álitamál sem þingmaðurinn er að tala um, m.a. mannréttindamálin, (Gripið fram í.) málsmeðferðina og annað slíkt þannig að sjónarmið okkar í því efni koma mjög skýrt fram og ég tel að því sé vel fyrir komið.

Hvað hitt varðar kann auðvitað vel að vera að það henti Sjálfstæðisflokknum einkar vel í þessu máli, eins og hefur komið fram í hverju andsvarinu á fætur öðru, að snúa umræðunni upp í það að hér séu á ferðinni pólitísk réttarhöld sem verði að forðast. Kannski er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að koma út í samfélagið að hér séu á ferðinni pólitísk réttarhöld. Það er ekki svo. (Forseti hringir.) Við erum að fjalla um ábyrgð ráðherra samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. (Forseti hringir.)