145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

auknar skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[11:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega rangt sem þingmaðurinn heldur hér fram. Við erum að bæta verulega í hvað snertir lífeyrisþega. (Gripið fram í.) Við erum að setja 10,8 milljarða til viðbótar til handa öldruðum á grundvelli þeirra kerfisbreytinga sem samstaða náðist um.

Því miður stóðu Öryrkjabandalagið og stjórnarandstaðan gegn því að við gætum náð í gegn sambærilegum breytingum hvað snertir öryrkja. Ég vona enn að á nýju þingi getum við tekið höndum saman um að gera það. (SII: Svaraðu spurningunum.)

Eins og hv. þingmaður þekkir líka ágætlega og kemur t.d. fram (SII: Svaraðu spurningunum.) í félagsvísunum er staða fólks sem býr eitt einfaldlega verri en þeirra sem búa með öðrum. Það eru mjög fáir — við erum að kalla eftir upplýsingum um það — sem eru í þeirri stöðu að vera í sambúð með öðrum sem munu ekki njóta góðs af þeim breytingum sem við erum að tala um.

Við erum líka að fara í verulegar hækkanir á bótum á grundvelli 69. gr. þannig að allir munu koma betur út á grundvelli styrkrar efnahagsstjórnunar hjá þessari ríkisstjórn. (SII: Þú svaraðir ekki spurningunum.)