145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nú þegar líður að lokum þessa þinghalds eru tvö mál sem sýnt er að fá ekki brautargengi. Það er mjög miður. Það er í fyrsta lagi frumvarpið um LÍN og í öðru lagi frumvarp um lífeyrissjóði, þ.e. greiðslur ríkissjóðs til lífeyrissjóða. Mér þykir það satt að segja mjög dapurlegt. Þetta er eitt af því sem fylgir svokölluðum samningum milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvers tíma þar sem stjórnarandstaða hvers tíma reynir að ná sér í stöðu með því að stoppa þjóðþrifamál sem annars færu hér í gegn. Þetta er plagsiður sem ég vona að verði á undanhaldi á næstunni og líði undir lok. Ég vona líka að námsmenn, sem hafa beðið þess að LÍN-frumvarpið verði að lögum, minnist þess þegar þeir fara inn í kjörklefann í haust hverjir það voru sem komu í veg fyrir að frumvarpið yrði að lögum og hugsi sig vel um áður en þeir greiða atkvæði sitt nú í haust.

Hvað varðar lífeyrissjóðamálið er það mjög dapurlegt að það skuli hafa dagað hér uppi. Það verður til þess að skjólstæðingar þeirra, fulltrúar launþega, þurfa væntanlega að greiða 20% meira í lífeyrissjóðsiðgjald nú um áramótin en ella hefði verið. Þetta færir til baka á byrjunarreit önnur mál sem þarna hanga saman, samanber SALEK-samkomulagið og annað. Ég hef satt að segja miklar áhyggjur af því að þetta geti haft áhrif til lengri tíma og þess vegna er það mjög miður að hvorugt þessara mála skuli nú á þessum síðustu dögum hafa hlotið náð fyrir augum alls þingheims. Ég ítreka að kjósendur þurfa að hafa í huga á hvers ábyrgð þetta er.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna