145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:27]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar kannski að byrja á að leiðrétta hv. þingmann, mér er illt í réttlætiskenndinni þegar við ræðum um almannatryggingakerfið almennt, þar sem ég hef heyrt gífurlega margar sögur af því hvernig fólk sem er að reyna að berjast áfram lendir síðan allt í einu í því að almannatryggingakerfið segir: Hæ, heyrðu, látum okkur sjá, þú skuldar okkur þetta. En viðkomandi á einfaldlega varla bót fyrir boruna hvort eð er. Þetta eru sögur sem maður heyrir hér og þar. Að sjálfsögðu verður mér bara illt í hjartanu og illt í réttlætiskenndinni þegar við ræðum þessi mál. Þetta er mjög flókið eins og hv. þingmaður bendir á. Þó að það sé ódýrara að búa saman finnst mér að það eigi ekki að skerða þau laun. Mér finnst að heimilisuppbót, og heimilisuppbót þarf þá að vera uppbót miðað við lágmarksframfærslu. 220 þúsund kall á mánuði, ég mundi ekki treysta mér til að lifa á því. 240 þúsund kall? Varla. Laun á almennum vinnumarkaði eru komin upp í 280–300 þúsund kall á mánuði. Þarna er bara heilmikill munur á. Síðan ofan á það væri kannski hugsanlega hægt að ræða að setja einhverja heimilisuppbót. Það er það sem ég á við. Heimilisuppbót er til að bæta ofan á. Ekki til að segja: Heyrðu, 280 þúsund kall? Nei, ef þú ert í sambúð drögum við það frá þér. Það er svolítið eins og þetta er í raun hugsað.

Frábært að verið sé að setja fjármuni inn í kerfið. En ég hlýt að mega setja fyrirvara varðandi það hvernig þessi nálgun er. Jú, ókei, ég skil alveg til hvers almannatryggingakerfið er. En af hverju er þá verið að ganga svona harkalega að fólki sem þénar nokkra aura? Af hverju eru þessi skerðingarhlutföll svona ströng? Af hverju er verið að hækka skerðingarhlutfallið? Við erum oft að tala um einstæðinga sem eru kannski að prjóna peysur, bara til að eiga hugsanlega (Forseti hringir.) fyrir því að gefa barnabörnunum sínum jólagjafir.