132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Vandi rækjuiðnaðarins.

[14:34]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir umræðuna og ítreka að ég tel að hún hafi verið mjög nauðsynleg. Hér er um gífurlegt vandamál að ræða.

Það kom á daginn, eins og ég hafði gert ráð fyrir, að ekki væri að vænta mikilla tillagna á þessu stigi, við þessa umræðu. Þess vegna varð það m.a. að ráði hjá mér á sínum tíma að setja niður þessa nefnd til að fara yfir málefni rækjuiðnaðarins og rækjuútgerðarinnar. Það er einfaldlega þannig, eins og hefur auðvitað komið fram í umræðunni, að þetta mál er ekki einfalt. Menn eiga ekki að reyna að slá pólitískar keilur með því að gera lítið úr því þegar sett er niður nefnd manna sem þekkja mjög vel til, til að fara yfir mál sem er mjög alvarlegt og flókið. Það kom vel fram í umræðunni að menn hafa ekki á takteinum lausnir á þessum vanda. Þess vegna eiga menn ekki að gera lítið úr því þegar menn reyna af fullri alvöru að átta sig á stöðunni í því skyni að finna lausnir á því sem hv. þingmenn viðurkenndu í öðru orðinu að væri á margan hátt sérstakur.

Menn hafa beint sjónum að hugmyndunum um aflabætur á grundvelli 9. greinar. Það hefur komið dálítið á óvart hve hart hv. þingmenn, sérstaklega hv. þm. Jón Gunnarsson, gengu fram í þeim efnum. Mér hefur heyrst á undanförnum vikum, af hálfu Samfylkingarinnar, að þeir séu á móti því að nota þá grein með þessum hætti. Þeir hafa talið eðlilegt að þegar þannig stæði á í einstökum byggðarlögum kæmu fram fjárframlög af hálfu hins opinbera í stað þess að nota aflabæturnar. Því er einkennilegt að það skuli koma úr þessari átt krafa um að beita aflabótum samkvæmt 9. grein.

Þar fyrir utan verða menn að átta sig á því til hvers þetta mundi leiða. Mundi þetta létta róðurinn hjá þeim verksmiðjum, t.d. þeim sem ekki eru með kvóta? Nei. Mundi þetta létta róðurinn hjá verksmiðjum með miklar aflaheimildir á bak við sig, kannski stærstu fyrirtækjunum í þessari grein? Að sjálfsögðu. Menn verða að hafa þá mynd fyrir framan sig og átta sig á því hvort úrræðið við þessar aðstæður sé fyrst og fremst að rétta hjálparhönd þeim fyrirtækjum sem hafa sterkustu aflaheimildirnar á bak við sig. Mér heyrist það vera skoðun Samfylkingarinnar. Ég held hins vegar að horfa þurfi á málið í víðara samhengi.

Varðandi spurningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, um veiðigjaldið, vil ég segja að það er um 10 millj. á þessu ári, varðandi úthafsrækjuveiðina. Það er nú (Forseti hringir.) þegar í athugun í sjávarútvegsráðuneytinu að fara yfir þau mál sérstaklega, hvort réttmætt sé að leggja slíkt veiðigjald á rækjuna eins og mál standa.