132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort.

35. mál
[18:51]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um leið og ég þakka 1. flutningsmanni þessarar tillögu, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, ágæta ræðu hér, framsögu, vil ég segja nokkur orð þessu máli til stuðnings. Allt er það rétt og satt sem hér var talið upp en kannski ættum við að setja mest kastljós á það hvaða ástand í raun og veru leiðir af skortinum á almennilegum gögnum og á almennilegum upplýsingum um náttúrufar á Íslandi, vistkerfi og vistgerð sem hér er nýyrði á síðari tímum. Við höfum í u.þ.b. aldarþriðjung — sumir telja að mörkin séu við Laxárdeiluna um 1970 — búið við það að eitt helsta deilumál á Íslandi hefur varðað umhverfisvernd og þá einkum framkvæmdir sem þykja um of ganga á það umhverfi sem okkur Íslendingum er gamalgróið. Ég ætla ekki að taka afstöðu í einstökum atburðum sem gerst hafa á þeim tíma en það þekkja allir sem hér hafa hreinlega lifað þennan aldarþriðjung, eða skemur, að þetta er að verða eitt af helstu deilumálum okkar og verða mikill partur af íslenskri pólitík, og reyndar í alþjóðlegu ljósi.

Deilurnar hér hafa á síðari tímum, núna síðasta áratuginn, síðustu kannski fimm árin, verið magnaðri og illskeyttari en víða í kringum okkur. Miðað við Noreg þar sem ég þekki ofurlítið til erum við á eftir svo að munar nokkrum áratugum í þessum efnum. Deilur um þessi mál í Noregi eru nú orðnar miklu skárri, vil ég segja, en áður var, og miklu skárri en hér eru. Á bak við þetta eru ýmis rök en það er ákaflega hlálegt að ein rökin skuli vera þau að okkur skortir hreinlega gögn um náttúruna. Okkur skortir náttúrufarskort og aðrar upplýsingar á einum stað og með samræmdum hætti sem geta á skömmum tíma gefið okkur upplýsingar um það land sem til greina kemur á hverjum tíma og um sambærilega staði, um það hvar verðmæt náttúrufyrirbrigði eru niðurkomin og hversu verðmæt þau eru. Það er hlálegt að aftur og aftur í sögu okkar á síðustu árum á þessari nýju öld skulum við lenda í því að merkileg náttúrufyrirbrigði nánast uppgötvast á undirbúningstíma framkvæmda eða jafnvel þegar framkvæmdir eru langt komnar, að menn þurfi að deila um staðreyndir eftir að búið er í raun og veru að taka ákvörðun um að fara í framkvæmdir, og allt er það vegna þessa skorts á grunngögnum. Ég held að við ættum að gera það fyrir framtíðardeilur af þessu tagi og til að auðvelda mönnum afstöðu á næstu árum, ég tala nú ekki um á næstu áratugum, að skammast til þess að gera átak í þessu efni, koma upp þeim upplýsingaforða og þeim grunngögnum sem við þurfum hér á að halda þannig að við deilum þó að minnsta kosti ekki að óþörfu um þessi erfiðu og viðkvæmu efni.

Þetta var nú það sem ég vildi leggja áherslu á sérstaklega en tek undir það sem hér hefur verið sagt. Ég sé að fimm félagar mínir úr Samfylkingunni eru flutningsmenn. Við höfum gert þetta mál kannski að því sem kalla má gælumál, með jákvæðum hætti. En það á að sjálfsögðu ekki að hindra aðra þingmenn í að styðja það, eins og hefur reyndar sýnt sig í umhverfisnefnd, sem hv. flutningsmaður minntist á áðan. Umhverfisnefnd hefur tekið undir þessi sjónarmið í umsögnum núna í tvö ár og ég vænti þess að hún geri það þriðja árið. Nú er þó kannski kominn tími til þess á fimmta þinginu eftir að þetta var fyrst flutt að gerður verði skurkur í þessum efnum. Það þarf auðvitað að vekja athygli umhverfisráðherra vandlega á því. Þess má raunar geta að umhverfisráðherra var formaður umhverfisnefndar fyrsta árið sem hún sérstaklega vakti athygli á þessu við fjárlaganefnd.