135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:50]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, fyrir að gera grein fyrir umræddu frumvarpi sem við flytjum hér fimm þingmenn Samfylkingarinnar sem eru, auk hennar og þess sem hér talar, hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir, Ellert B. Schram og Róbert Marshall.

Þegar umrædd lög voru sett á sínum tíma var mikið um þau fjallað og þau eru líklega ein af stóru málunum sem hafa verið í þjóðmálaumræðunni. Ég get sagt að sjaldan hef ég fengið jafnmikla hvatningu til að taka eitt einstakt mál upp við þingheim og þetta tiltekna mál. Því er fagnaðarefni að geta verið í þeim hópi sem fer fram með þetta mál undir forustu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur en við stjórnarskiptin sem urðu á Alþingi eftir síðustu kosningar hafa líka hugsanlega skapast hér önnur tækifæri til að fara í þetta mál.

Ég vil í sjálfu sér ekki lengja umræðuna um þetta, umræðan hefur verið tekin og vissulega ákveðin prinsippumræða. En eins og hér kemur fram er markmiðið með flutningi frumvarpsins að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi. Þannig halda þeir þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér en eftir gildistöku laganna gilda almennar reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna um aðra en forseta Íslands.

Hér er vikið að því að umrædd lög nr. 141/2003 hafi verið allumdeild meðal þjóðarinnar og það er þess vegna sem við fyrrnefndir fimm hv. þingmenn flytjum þetta frumvarp. Ég vonast til að allsherjarnefnd fari vel og ítarlega yfir málið og það komi hér til frekari meðhöndlunar í þingsölum á síðari stigum.