138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskipulagning skulda.

[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það berast fregnir úr bankakerfinu og viðskiptalífinu um að þar sé unnið að endurskipulagningu skuldastöðu. Því miður hafa mál þróast á þann veg að fólk skilur ekki hverjir eiga rétt á því að fá skuldir felldar niður, hverjir eiga rétt á því að fá að koma áfram að þeim atvinnurekstri sem þarfnast endurskipulagningar skulda, í hvaða tilvikum bankarnir ætla að taka yfir eignarhaldið og segja þá skoðun sína að núverandi eigendur þurfi að víkja frá rekstrinum. Hvenær eru bankarnir í stöðu til að selja kröfur sínar, eins og nú berast fregnir af frá fjölmiðlum, að einstakir bankar hafi gripið til þess ráðs, jafnvel meðan verið var verið að semja við skuldara, að framselja kröfuna öðrum? Við hljótum að gera kröfu um að íslenskur almenningur skilji hvernig málum er háttað í bankakerfinu, að á sama tíma og fjölskyldurnar reyna að standa undir skuldabyrði sinni og við hér á þinginu setjum lög og reglur um þessi efni, sé það með sama hætti gagnsætt í atvinnulífinu á hvaða forsendum menn fá felldar niður skuldir, hvert gagnsæið á að vera.

Staðreyndin er sú að ekki er endalaust hægt að skýla sér á bak við bankaleynd í þessum málum. Það á að vera tiltölulega auðvelt að setja skýrar reglur sem allir geta skilið þar sem tryggt er að sambærileg mál fá meðhöndlun, þar sem bankarnir geta tjáð sig um að þeir telji að í tilteknum tilvikum sé áframhaldandi eignarhald viðkomandi eigenda mikilvægt en ekki í öðrum tilvikum.

Nú spyr ég fjármálaráðherra sem hefur með eignarhald á bönkum að gera hér á landi: Hvaða hugmyndir hefur ríkisstjórnin til að eyða þeirri óvissu og því skilningsleysi sem ríkir um meðhöndlun þessara mála? (Forseti hringir.) Hvað stendur til að gera til að efla að nýju traust á fjármálastofnunum í landinu? Við þurfum að hafa allt annað andrúmsloft við þá (Forseti hringir.) mikilvægu endurskipulagningu sem fram undan er fyrir atvinnufyrirtæki?