138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskipulagning skulda.

[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er liðið ár frá því að ljóst varð að taka þyrfti þessi mál mjög miklu traustataki og það er eflaust rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að bankarnir hafi verið að móta sína aðferðafræði. Vandinn liggur í því að það er ekki traust á þessum ferlum. Fólk skilur ekki hvenær skuldir eru afskrifaðar og hvaða reglur gilda. Þegar íslenskur almenningur þarf að leggja sig allan fram um að standa undir skuldabyrðinni og stendur í sjálfu sér ekki annað til boða núna en að fá nýtt greiðsluplan, berast fregnir af miklum afskriftum og ólíkri meðferð í kerfinu. Þetta ástand mun ekki tryggja neinn frið um skuldaaðlögun fyrir heimili og það mun líka leiða til gríðarlega mikillar sóunar og undanskots eigna í atvinnulífinu. Við verðum að laga þetta ástand og ef bankarnir rísa ekki undir því hlutverki að skýra miklu betur hvaða reglur eiga að gilda hér þurfum við að grípa inn í. Við treystum því að þeir sem fara með þessi mál geri það betur en við höfum orðið vitni að hingað til og hafi vökul augu með þessu, það dugar okkur ekki að fá skýrslu eftir einhverjar vikur. Það er augljós vandi núna sem hægt er að taka á með því að gera kröfu um að verklagsreglurnar verði gerðar opinberar og skýrar.