139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka.

[10:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu mikið alvörumál að þau efnahagsáföll sem á okkur hafa dunið eru nánast dæmd til að leiða til aukinna erfiðleika og við verðum að búa okkur undir það að fátækt, hvort sem við mælum hana í „relatífum“ eða „absalút“ skilningi er líkleg til að aukast við svona aðstæður. Því miður hefur hún alltaf fylgt okkur eins og öðrum velmegunarsamfélögum í einhverjum mæli og það er hægara sagt en gert að útrýma henni eins og menn hafa þó oft talað um að vilji þeirra stæði til og auðvitað er það svo. Við þurfum að taka þetta ástand mjög alvarlega. Þetta er ekki ástand sem einhver einn aðili leysir með einföldum hætti. Ég held að ríki, sveitarfélög, hjálparstofnanir og aðrir sem sinna þessum málum þurfi að taka þarna höndum saman. Að sjálfsögðu er það dapurlegt að sjá fólk þurfa að bíða í biðröðum við bágar aðstæður eftir stuðningi af þessu tagi og maður veltir fyrir sér hvort velferðarnetið, öryggisnetið undir samfélaginu, sé að gefa eftir með einhverjum hætti úr því að svona er komið. En hvort lausnin eru úttektarmiðar fyrir mat eða einhver önnur úrræði skal ég ekki segja og kveða upp úr um, enda eru þau mál kannski ekki með beinum hætti á herðum fjármálaráðuneytisins.

Ég held að þó sé augljóst að tvennt er mikilvægast í þessum efnum, það er einfaldlega að framfærsluþörfin sé metin með raunsæjum hætti og að húsnæðismál séu leyst með því að enginn þurfi að vera á götunni. Þá er væntanlega tvennu borgið sem mestu máli skiptir meðan fólk kljáir við erfiðleika og reynir að komast í gegnum þá.

Um forgangsröðun í fjárlagafrumvarpi getur hv. þingmaður auðvitað talið upp ótal liði og sagt að þeir skipti minna máli en einhver önnur útgjöld, en það gildir þá meira og minna um allt. Ég bendi þó á þá staðreynd sem liggur fyrir að þrátt fyrir allt hefur tekist betur að verja kjör láglaunafólks og elli- og örorkulífeyrisþega en annarra hópa í gegnum kreppuna. (Forseti hringir.) Ítrekaðar kannanir sýna að kaupmáttur þessara hópa hefur varist betur hlutfallslega en annarra.