139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

jarðhitaréttindi í ríkiseigu.

[10:55]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Forseti. Fyrir liðlega hálfu ári síðan skilaði nefnd niðurstöðu sem fjallaði um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Nefndin vann mikið starf í þeim efnum og helstu niðurstöður hennar voru á þá leið að þeim réttindum sem hér um ræðir verði ekki ráðstafað nema tímabundið, að ríkið eigi undantekningarlaust að taka gjald fyrir rétt til nýtingar þessara auðlinda og að liðka eigi eftir föngum fyrir því að hin tímabundna ráðstöfun til tiltekins aðila verði framlengd hafi viðkomandi aðili staðið við þau skilyrði sem sett voru. Og ekki síst að það sé grundvallaratriði að þegar ríkið býður tímabundinn afnotarétt að tilteknum auðlindum sé það gert með gagnsæjum hætti þar sem jafnræðissjónarmið eru höfð að leiðarljósi.

Þá var einnig lögð á það áhersla að smíða þyrfti lagagrunn í kringum þessar tillögur nefndarinnar, þær væru best settar inn í grundvöll laga sem eru í gildi, nr. 57/1998. Það er afar brýnt að lagaramminn í þessum málum sé skýr og taki til allra hagsmunaaðila en rétt er að vekja athygli á því að jarðhitaréttindi til að mynda á Reykjanesi, Krýsuvík og norður í Þingeyjarsýslu eru í höndum sveitarfélaga á viðkomandi svæðum.

Í framhaldi af niðurstöðum og tillögum nefndarinnar vil ég beina eftirfarandi fyrirspurnum til hæstv. iðnaðarráðherra:

Hvað líður útfærslum á framangreindum tillögum í nýjan lagaramma? Hvenær verður slíkt frumvarp lagt fyrir Alþingi? Hvert er mat og skoðun ráðherra á þeim lykiláherslum sem fram koma í tillögum nefndarinnar?