139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessum stóra málaflokki og taka hann til umræðu hér. Umræðan hefur eins og fram hefur komið staðið í mörg, mörg ár og ég tel að það sé rétt hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að næstu áramót eru tímamót, það má líta á það þannig. Nærþjónustan á að vera hjá sveitarfélögunum, þ.e. ég tel að þegar sú þjónusta sem borgararnir þurfa á að halda frá degi til dags er hjá sveitarfélögum sé borgurunum betur borgið en ella. Það gefur til að mynda færi á því að sveitarfélögin geta þá tekið að eigin frumkvæði upp notendastýrða þjónustu og sýnt frumkvæði í því máli. Um fjármagnið sem flyst með til sveitarfélaganna, 10,7 milljarðar kr., hafa verið uppi efasemdir um hvort það sé nægilega mikið. Það verður í rauninni ekki hægt að svara því almennilega fyrr en út í verkefnið er komið og ég treysti því að hægt verði að ræða það með opnum huga þegar fram í sækir hvort þurfi að bæta í þar.

Samlegðaráhrifin sem sveitarfélögin geta væntanlega nýtt sér af því að hafa þennan málaflokk hjá sér, þ.e. þennan málaflokk ásamt félagsþjónustu sveitarfélaganna og öðrum þáttum, munu væntanlega gera það að verkum, ég trúi því a.m.k., að þjónustan verði betri fyrir jafnmikið eða jafnvel minna fjármagn en nú er nýtt. Og það er vel. Sú hagræðing næst þó ekki að fullu fyrr en málaflokkurinn málefni aldraðra flyst einnig yfir til sveitarfélaganna og ég hlakka til þegar við tökum það skref. Ég held að það verði einnig framfaraskref eins og það sem verður stigið um næstu áramót.