140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

virðisaukaskattur.

32. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Flutningsmenn að málinu eru ásamt mér allnokkrir þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Vinstri grænum og Samfylkingu.

Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi. Að lokinni 1. umr. var málinu vísað til efnahags- og skattanefndar, kallað var eftir umsögnum og málið rætt í nefndinni en ekki afgreitt þaðan. Þess vegna er það flutt að nýju.

Þess ber að geta strax í upphafi umræðunnar að málið hefur fengið meiri athygli en ég hugði í upphafi. Mjög margir hafa fylgst með því, sérstaklega íbúar á þeim svæðum þar sem húshitunarkostnaður hefur verið mestur. Það er líka svo að eftir að kallað var eftir umsögnum frá ýmsum hagsmunaaðilum, þeim sem þekkja til, sveitarfélögum, sérstaklega á köldum svæðum, og sérfræðingum sem hafa unnið að þessum málum, þ.e. varðandi hinar svokölluðu varmadælur, er ljóst að mikill og víðtækur stuðningur er við málið.

Ég vek einnig athygli á því að það er flutt af fjölda þingmanna úr fjórum stjórnmálaflokkum, eins og ég nefndi áðan. Því má ætla að stuðningurinn við málið sé býsna almennur. Ég trúi því þess vegna að það sé þannig á vegi statt að afgreiða megi það núna á allra næstu vikum. Að mínu mati er engin þörf á að kalla að nýju eftir umsögnum. Þær umsagnir lágu fyrir á haustdögum. Ég get fullyrt að innan efnahags- og skattanefndar var mikill og almennur áhugi á því og vilji til þess að afgreiða það. En hins vegar tókst ekki, í örtröðinni og látunum sem voru hér síðustu sólarhringana á septemberstubbnum, að afgreiða þingmannamál eða önnur slík mál þrátt fyrir að um þau væri bærileg samstaða eins og virðist vera með það mál sem hér er um að ræða. Ég held hins vegar að miklu skipti að málið sé afgreitt sem fyrst. Kjarni þess er mjög einfaldur.

Svokallaðar varmadælur bera núna 25,5% virðisaukaskatt, þær eru sem sagt í hærra skattþrepinu. Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir að heimilt verði að endurgreiða þann virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælum og tengdum búnaði til húshitunar.

Ég ætla aðeins að fara yfir forsögu málsins, rekja það og setja í eðlilegt samhengi. Eins og við vitum hefur húshitunarkostnaður víða á landsbyggðinni verið mjög sligandi fyrir afkomu margra heimila. Við verjum nokkru fé til niðurgreiðslna, ætli það sé ekki nálægt 1 milljarði kr. á ári eða svo. Það hefur stundum gengið vel, stundum hefur okkur lánast vel að ná fjármagni til þeirra verkefna og þá hefur það birst í því að niðurgreiðslurnar hafa aukist og það hefur haft jákvæð áhrif á húshitunarkostnaðinn. Það tókst þokkalega til á fyrstu árum þessarar aldar sem gaf kannski vísbendingu um að framhaldið gæti verið í samræmi við það. Hins vegar hefur slegið í bakseglin. Ég held að ekki sé ástæða til að fara hér í einhvern umkenningaleik, það þjónar litlum tilgangi að mínu mati við þessar aðstæður.

Kjarni málsins er hins vegar sá að eiginlega tvennt hefur gerst. Á sama tíma og við höfum verið að draga saman seglin í niðurgreiðslum til húshitunarkostnaðar hafa lífskjör fólks verið að versna eins og allir vita af ástæðum sem allir þekkja og atvinnustigið er lægra. Þess vegna hefur húshitunarkostnaðurinn orðið miklu þyngri í heimilisbuddunni en oft áður.

Ég lagði fram á sínum tíma fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra á 139. löggjafarþingi þar sem ég óskaði eftir því að dregnar yrðu saman upplýsingar um þróun húshitunarkostnaðar á þessari öld hjá helstu orkuveitufyrirtækjum landsins varðandi rafhitun og hitaveitur og kyntar hitaveitur, sem við kölluðum í gamla daga fjarvarmaveitur að ég hygg, og að ferns konar húsakynni yrðu skoðuð, 100 m² hús, 140 m² hús, 180 m² hús og 250 m² hús. Myndin af þessu er býsna skýr. Ég tek sem dæmi:

Kostnaður við að hita 180 m² húsnæði í dreifbýli á svæði Rariks er núna talinn vera 238 þús. kr. Hann var á núgildandi verðlagi 166 þús. árið 2000 og fór lægst niður í 138 þús. árið 2002. Hækkunin frá árinu 2000 er því 43% á þeim orkuveitusvæðum, þ.e. í dreifbýlinu, þar er ástandið eins og allir vita verst, en hvorki meira né minna en 72% hækkun, nærri um ¾, sé árið 2002 tekið til viðmiðunar en þá fór raungildið á kostnaðinum, húshitunarkostnaðinum, neðst á því tímabili.

Ef við skoðum hins vegar húshitunarkostnaðarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur kemur dálítið athyglisverð mynd upp. Þá er það þannig að það kostar að kynda sambærilegt húsnæði og ég nefndi áðan 93 þús. kr. á ári núna eftir síðustu hækkun fyrirtækisins. Árið 2000 var kostnaðurinn 100 þús. kr. og lægstur árið 2009, hygg ég, 72 þús. kr. á verðlagi ársins í ár. Það vekur auðvitað miklar spurningar um rekstrarforsendur og hvernig staðið var að málum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, að láta sér detta í hug að það gæti verið eðlilegt eða sjálfbært að húshitunarkostnaður væri 72 þús. kr. eftir allar þær hremmingar sem höfðu þá yfir það fyrirtæki gengið, þá væri húshitunarkostnaðurinn, taxtar Orkuveitunnar lægstir að raungildi í raun og veru á þessu ári þegar fyrirséð var og ljóst var að allar hremmingarnar höfðu dunið yfir fyrirtækið.

Þær tölur hafa fengið mig til að velta því fyrir mér með hvaða hætti hægt sé að bregðast við. Í tillögu til byggðaáætlunar sem var lögð fram í fyrra var sagt að hitaveituvæðingin í landinu hefði náð hámarki. Ég er ekki viss um að það sé alveg 100% rétt. Í byggðaáætlunartillögunni var hins vegar kveðið á um að ekki væri vænlegt að halda áfram jarðhitaleit, a.m.k. að miklu marki. Þess í stað var bent á aðrar lausnir til umhverfisvænnar orkuöflunar sem mætti styrkja með svipuðum hætti og hitaveitur hafa verið styrktar og í því sambandi var m.a. vísað á notkun á varmadælum. Svo ég nefni það og haldi því til haga var líka nefnt til sögunnar að það mætti í ýmsum tilvikum taka upp einhvers konar lurkakyndingu. Ég á ekki von á að það yrði nokkuð almennt að menn færu að ganga á fjörur og hirða reka, enda eru ítök í þeim væntanlega bundin að nokkru leyti eignarréttinum eins og við þekkjum.

Að þessu gamni slepptu var hins vegar vísað til varmadælna. Í framhaldi af því kynnti ég mér þau mál nokkuð. Orkusetrið á Akureyri hefur unnið upplýsingar um þessi mál og farið mjög yfir þau. Á heimasíðu þeirra, orkusetur.is/varmadaelur, er að finna mikinn fróðleik. Því er m.a. lýst þannig, með leyfi forseta:

„Varmadælur hafa notið síaukinna vinsælda á norðlægum slóðum þar sem þörf er á upphitun húsa stóran hluta ársins. Í Svíþjóð eru t.d. 95% allra nýbygginga útbúnar varmadælum. Ísland hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að húshitun þar sem langstærsti hluti bygginga er hitaður með ódýrum jarðvarma. Um 8% notenda kynda þó hús sín með rafhitun þar sem varmadælur kæmu í sumum tilfellum til greina sem vænlegur kostur til að draga úr orkunotkun.“

Síðan er farið yfir það út á hvað varmadælur ganga. Ég ætla ekki að fara yfir þá tæknilegu útfærslu, það geta menn lesið sér til um, m.a. í greinargerð með frumvarpinu.

Vandinn í þessu máli er hins vegar sá að stofnkostnaður við varmadælurnar er talsverður. Það hefur hamlað því að ýmsir sem vilja lækka orkukostnað sinn hafi talið það vera endilega skynsamlegt, einhver rekstrarkostnaður er líka til staðar. Þetta er náttúrlega nýtt fyrirbrigði. Menn eru því nokkuð hikandi við að fjárfesta í varmadælum.

Þegar við skoðum þetta kemur í ljós að varmadælurnar bera 25,5% virðisaukaskatt, eru í hærra þrepinu. Það verður þess valdandi að það dregur úr áhuga manna til að nýta varmadælurnar.

Hugsunin með frumvarpinu er sú að opnuð verði bráðabirgðaheimild til fimm ára til að endurgreiða virðisaukaskattinn af varmadælum og hvetja þannig fólk til þess, þar sem orkukostnaðurinn er hæstur, að kaupa sér varmadælur og setja þær við húshitunarbúnaðinn í húsum sínum og lækka þannig orkukostnaðinn. Ég hef heyrt fjölmarga sem hafa nýtt sér slíkt halda því fram að þetta sé nú þegar orðið býsna hagkvæmt, en sú hagkvæmni komi ekki fram fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Þess vegna er frumvarpið flutt, þ.e. til að gera þetta enn þá ákjósanlegra og eftirsóknarverðara að taka upp slíkt fyrirkomulag um húshitunarkostnað og stuðla þannig að því að lækka þann kostnað.

Nú fer því fjarri að þetta leysi öll heimsins vandamál þegar kemur að húshitunarkostnaði, það gerum við okkur auðvitað ljóst, en þetta gæti verið liður í því að lækka þann kostnaðarlið, þennan sára kostnaðarlið. Svo er þetta náttúrlega líka orkusparandi í eðli sínu. Og er það ekki eitt af því sem við erum að stefna að í heimi sem nýtir gríðarlega mikla orku þar sem orkunotkunin fer árvaxandi, þar sem menn óttast jafnvel orkuskort með því að jarðefnaorkugjafar fara þverrandi? Er það þá ekki hluti af þeim, svo ég tali nú svolítið virðulega um málið, heimsskyldum okkar, skyldum okkar við umheiminn, að stuðla að því að draga úr orkunotkuninni ef það mætti verða gert t.d. með þessu fyrirkomulagi?

Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta til viðbótar. Ég vil þó nefna eitt atriði. Til viðbótar við þetta eru önnur opinber gjöld, aðflutningsgjöld, ég kann nú ekki nákvæmlega að telja þau en þau eru sannarlega til staðar. Ég tel að skynsamlegt væri, eins og nefnt er í greinargerðinni sem fylgir frumvarpi okkar þingmannanna, að ríkið afnæmi tolla jafnframt því að endurgreiða virðisaukaskattinn af varmadælum, a.m.k. tímabundið, til að fá hina fullu virkni, til að stuðla sem best að því og hvetja sem mest til þess að menn fari þessa leið til að lækka húshitunarkostnaðinn.

Af því að ég sé að hæstv. fjármálaráðherra heiðrar mig með því að sitja undir umræðunni, þá ég held að þetta sé búið að vera ansi mikið verkefni á okkar pólitíska ferli beggja, að hyggja að húshitunarkostnaðarmálum víða á landsbyggðinni. Stundum höfum við unnið sæmilega sigra, sundum höfum við líka mátt þola töp. Þetta frumvarp — þó að það sé kannski ekki talið eitt af stærstu málum þessa þings og skal það viðurkennt þó að ég sé 1. flutningsmaður þess — getur skipt miklu máli.

Það sem ég vil líka undirstrika í þessum efnum er að sá hluti landsins sem býr við þá vondu kosti að þurfa að borga stóran hluta af ráðstöfunartekjum sínum til húshitunarkostnaðar er ótrúlega lítill. Menn hafa áætlað að um geti verið að ræða svona 30–35 þús. manns af 300 þús. manna þjóð, kannski um 10% af þjóðinni sem býr við þá afarkosti. Ég tel einfaldlega að við eigum að hefja svona mál langt upp fyrir pólitískt dægurþras og ríg. Við eigum einfaldlega að reyna að sameinast um að leiðrétta þá þjóðfélagslegu meinsemd, sem ég vil kalla þetta, vegna þess að þetta er með öðru mjög þess valdandi sem við höfum verið að sjá og er gríðarlegt áhyggjuefni, þ.e. byggðaþróunin í landinu yfir langt tímabil.

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að kvelja menn með lengri ræðu. Málið hefur fengið nokkra umfjöllun, fékk mjög jákvæð viðbrögð frá fulltrúum allra stjórnmálaflokka og í efnahags- og skattanefnd þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna sátu. Ég tel að menn geti með tiltölulega skjótum hætti tekið afstöðu til málsins. Það felur sem sagt í sér að til fimm ára verði heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælum og síðan er sú hvatning höfð uppi til hæstv. fjármálaráðherra að samhliða því, verði þetta að lögum, verði tollar og önnur aðflutningsgjöld, a.m.k. tímabundið, afnumin af varmadælum.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, ætli hún heiti það ekki núorðið, til umfjöllunar og síðan 2. umr.