141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

efnahagsáætlun AGS.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að við hv. þingmaður lítum á það með ólíkum augum hvernig okkur hefur tekist að vinna okkur út úr kreppunni. Og við það verður bara að sitja. (Gripið fram í.) Þeir í AGS hafa oft bent á Ísland sem lönd í erfiðleikum og kreppu ættu að taka sér til fyrirmyndar. Þeir hafa meðal annars bent á velferðarkerfið, hvernig okkur hefur tekist að verja það þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem við höfum lent í.

Þegar hv. þingmaður bendir á að AGS hafi spáð hærri hagvexti en er núna, 3,4% og á móti 2,3%, þá er náttúrlega alveg ljóst að Ísland hefur ekki farið varhluta af þeirri alþjóðakreppu sem verið hefur hér, sem hefur haft áhrif á meðal annars fjárfestingar. Ég hvet því hv. þingmenn til að líta jákvæðari augum en hv. þingmaður á það hvernig við höfum verið að vinna okkur út úr kreppunni.