141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.

[11:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 20. október á að fara fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um spurningalista ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálum auk þeirrar spurningar hvort landsmenn vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla landsmenn til að mæta á kjörstað og nota sinn lýðræðislega rétt og segja álit sitt á þeirri spurningu. Í ljósi þess að nú stefnir í að kostnaðurinn við þetta stjórnarskrárbrölt ríkisstjórnarinnar kosti eftir þessa ráðgefandi kosningu 1.300 milljónir langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Til hvaða ráða eða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa hafni landsmenn því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?