141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.

[11:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var ekki við því að búast að almennilegt svar kæmi frá hæstv. forsætisráðherra. Ég fer að gildandi stjórnarskrá og hef því alltaf haldið því fram að stjórnarskrárbreytingar eigi að vera hér í þinginu en það er ekki heimilt að úthýsa því valdi samkvæmt þeirri stjórnarskrá sem er í gildi nú.

Varðandi þá spurningu sem ég lagði fram áðan, til hvaða ráða ríkisstjórnin ætli að grípa hafni landsmenn þessum tillögum í atkvæðagreiðslunni, þá er augljóslega ekki til neitt plan B hjá ríkisstjórninni. Ég var jafnvel að vonast til þess að hún mundi tilkynna það hér að hún mundi skila umboði sínu til Bessastaða en líklega er sú von ekki til staðar vegna þess að nú þegar hefur ríkisstjórnin hunsað tvær bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur og þá er ég að vísa í Icesave-kosninguna en þeim báðum kosningum tapaði ríkisstjórnin.

Ég spyr því á ný: Er til plan B hjá ríkisstjórninni um hvað á að gera hafni landsmenn þessum tillögum?