142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

verðtryggð námslán.

13. mál
[12:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“

Í stefnuyfirlýsingunni er mikil áhersla lögð á jafnræði niðurfellingar skulda. Í nýsamþykktri þingsályktun um skuldamál heimila er fjallað sérstaklega um forsendubrest vegna verðbólgu á árunum 2007–2010. Námslán eru hluti af skuldum heimilanna. Þau eru verðtryggð og hækkuðu gríðarlega á árunum 2007–2010. Í árslok 2006 voru námslán 76 milljarðar en voru árið 2010 um 129 milljarðar kr. Skuldir vegna námslána jukust því um 70% á fjórum árum eða um 53 milljarða. Námslán hafa hækkað gríðarlega og langt umfram kaupmátt. Það hefur þau áhrif að þeir sem tóku námslán eru mun lengur að greiða slík lán til baka en gera mátti ráð fyrir.

Taka má dæmi af láni grunnskólakennara með eitt barn og meistaragráðu. Lán kennarans hefur hækkað um 60% frá árinu 2005 þegar námi lauk þrátt fyrir afborganir í sjö ár. Telja má fullvíst að kennaranum endist ekki ævin til að greiða lánið til baka. Hefði verðlag verið stöðugt frá því að kennarinn hóf nám hefði honum að líkindum tekist að greiða lánið á starfsævi sinni við um það bil 70 ára eða 71 árs aldur. Til að upprunalegu forsendur um endurgreiðslu standist þurfa laun grunnskólakennarans að hækka um 50% frá árinu 2013.

Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra: Mun menntamálaráðherra á haustþingi leggja fram frumvarp um niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra lána, t.d. um 20%? Mun menntamálaráðherra leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingar á nýjum námslánum í samræmi við aðrar hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um afnám verðtryggingar? Mun menntamálaráðherra leggja fram frumvarp um að námslán sem í dag eru verðtryggð verði færð yfir í óverðtryggð lán eins og fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um önnur lán, verðtryggð lán bendir til?