144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

[10:50]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ráðherra fram skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu og fór hún til meðferðar atvinnuveganefndar sem leitaði álits bæði umhverfis- og samgöngunefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Álit allra þriggja nefndanna var á þá leið að mikilvægt væri að halda vinnunni áfram, þ.e. fara eftir tillögum ráðgjafarhópsins sem var í nokkrum liðum og laut að því að auka þá vinnu að kanna fýsileika þess að leggja sæstreng til Evrópu.

Það á enn eftir að kanna umhverfisáhrif til hlítar og hagkvæmni og geranleika. Einn helsti liðurinn sem þarf að vinna að lýtur að stjórnvöldum og hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra á í formlegum viðræðum við bresk stjórnvöld svo að við getum komist til botns í því hvort sæstrengur sé gott viðskiptatæki fyrir Íslendinga og jafnvel í leiðinni hvort við höfum tækifæri til þess að efla uppbyggingu raflína í kringum landið, sem er mjög þarft verkefni.

Í umræðunni um sæstreng og sölu raforku er mikilvægt að hafa á hreinu um hvað við erum að ræða. Við erum ekki að ræða um að selja grunnorku þá er Landsvirkjun selur helst til heimila og stóriðju, heldur svokallaða stýranlega orku sem er ekki mikið nýtt hér á landi en er Bretum mjög verðmæt og eftirspurnin eftir henni fer vaxandi þar. Þetta eru grundvallaratriði.

Mig langar að spyrja ráðherra af því að fyrir tæpu ári gaf Alþingi boltann til hennar: Hvernig ganga viðræður við bresk stjórnvöld? Hversu marga fundi hefur hún átt við Breta á þessu tæpa ári? Hver eru næstu skref ráðherra í málinu?