144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er vert að minna á það undir þessu vinsældaupphlaupi hv. þm. Helga Hjörvars og annarra Samfylkingarmanna í þessu máli að þeir sátu í ríkisstjórn frá árinu 2007–2013 og þá voru þessi lög í gildi. Þeir létu ekki svona þá. (Gripið fram í.) Það þarf ekki að velkjast í vafa um þá stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur sett sér í þessum málaflokki. Hún stendur einfaldlega í stjórnarsáttmálanum mjög skýrum stöfum. Þar segir m.a. að ríkisstjórnin líti á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapi íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Skipaður verði starfshópur sem muni fara yfir alla lagaumgjörð landbúnaðar, vinnslu matvæla og nýtingu lands. Mótaðar verði tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum sem ráðast þarf í til að ná settum markmiðum. Nýsköpun, markaðs- og sölumál verði einnig endurskoðuð og stefnt sé að því að endurskoða búvörusamninga.

Þessi ríkisstjórn er að takast á við þetta mál. Hún hefur sett það í stjórnarsáttmála. Hæstv. landbúnaðarráðherra er að fylgja því eftir. Hann hefur beðið Hagfræðistofnun um að gera skýrslu um núverandi kerfi. Á þeirri skýrslu verður byggt í vinnu þverpólitískrar nefndar. Þetta hafði síðasta ríkisstjórn ekki kjark til að gera eða getu. Hér þarf ekki að segja fleiri orð, en þá koma þessir vinsældarpólitíkusar úr ákveðnum stjórnmálaflokkum og ætla að slá sér upp hjá þjóðinni með því að villa umræðuna enn og aftur um eina af grundvallarstoðum íslensks samfélags sem er öflugur landbúnaður. (Gripið fram í.) Já, kallaðu bara fram í, hv. formaður Samfylkingarinnar. Það er von (Gripið fram í.) að þér svíði sannleikurinn.

Það stendur auðvitað ekkert annað til en líta til þess árangurs sem orðið hefur og innleiða samkeppni á þessum vetttvangi, það stedur ekkert annað til. Það þarf ekki að draga það í efa, það kemur fram í stjórnarsáttmálanum. En hvernig ætlum við að gera það? Ætlum við ekki að gera það þannig að áfram ríki trúnaður og traust á milli bænda og neytenda í samfélaginu? Eigum við ekki að gera það þannig að það verði áfram búsældarlegt, við getum byggt upp öflugan landbúnað þannig að hér borgi sig að vera með öfluga bændur (Forseti hringir.) og það sé gert í þágu neytenda sem njóta áfram lágs og góðs vöruverðs á mjólkurafurðum?