145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 28/2015 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

185. mál
[15:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2015, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn um flutningastarfsemi, og fella inn í samninginn reglugerð um flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi sem nánar er tilgreint í tillögunni sjálfri.

Reglugerðin inniheldur ítarlegar reglur um flugrekendur frá þriðja landi sem starfrækja loftför sem skráð eru í þriðja landi eða í aðildarríki sem hefur falið þriðja ríki lögbundið öryggiseftirlit og er notað af flugrekanda í flutningaflugi frá þriðja landi bandalagsins, innan þess eða frá því. Flugöryggisstofnun Evrópu er heimilað að gefa út heimildir til flugrekenda í þriðju ríkjum út frá flugöryggislegum forsendum og verður afgreiðsla þeirra miðlæg fyrir EES-svæðið. Eftir sem áður gefa ríkin hvert um sig heimildir til flugs innan viðkomandi ríkis eða til þess og frá því, að því tilskildu að heimild Flugöryggisstofnunar Evrópu sé þegar fyrir hendi.

Með lögum nr. 76 frá 9. júlí 2015, um breytingu á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, skapaðist lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðarinnar með stjórnvaldsfyrirmælum. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallaði á lagabreytingu hér á landi var hún tekin upp í EES-samninginn og var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.

Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram þar sem lög nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, kveða á um að stjórnskipulegum fyrirvara beri að aflétta með þingsályktun. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara. Gert er ráð fyrir að innleiðing gerðarinnar hafi jákvæð áhrif á stjórnsýslu og stuðli að auknu flugöryggi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.