148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:42]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góðar og upplýsandi umræður. Ég vil þakka kærlega fyrir svör hæstv. heilbrigðisráðherra. Til að byrja á því góða þá gleður það mig hreinlega að heyra að hv. þingmenn í salnum séu farnir að ljá máls á því að finna sjúkrahúsinu nýjan stað. Þeir vilja gera vandaða staðarvalsgreiningu en þeir vilja fara í hana eftir 20 ár. Það er kannski það sem stendur eftir hjá mér. Ég geri ekki lítið úr samvinnu við fræðasamfélagið. Ég held að það sé mjög mikilvægt en ég vil benda á að það á sér oft stað samstarf án staðsetningar.

Það er mjög sérstakt að heyra hv. þingmenn Framsóknarflokksins tala hér um að nú sé nóg komið. Það var eitt af kosningarloforðum þeirra, ekki bara síðasta ár heldur líka þar áður, að finna spítalanum nýjan stað.

Ég neita því að þessi umræða sé þreytt. Það er rétt að það hafa verið gerðar skýrslur. Ein þeirra sagði að ef ekki væri hægt að finna spítalanum nýjan stað þá væri besti, skásti staðurinn við Hringbraut. Varðandi þá tillögu sem kom fram áðan, hún var vissulega ekki samþykkt, þessi tillaga sem var vitnað til að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði samþykkt, hv. þingmaður Miðflokksins. Henni var breytt og það var ákveðið að það færi fram uppbygging á núverandi húsnæði, enda ekki vanþörf á. Ég vil bara árétta þetta hér og þakka kærlega fyrir umræðuna, þakka ykkur öllum.