148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[11:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda þessa þörfu umræðu. Í margradda og frjálsu fjölmenningarsamfélagi þurfum við að tryggja að opinber umræðu- og menningarvettvangur sé öflugur og margbreytilegur. Við viljum tjá okkur og sjá okkur í fjölmiðlum sem hafa sama tungumál og við tölum og sama menningarlega bakgrunn og við höfum. Við tölum mikið um að efla þurfi innviði um þessar mundir og þá má ekki gleymast að hið sama gildir um menningarlega innviði okkar. Þar er Ríkisútvarpið mikilvægt, Ríkisútvarpið sem er með orðum hv. málshefjanda sjálfstæður, öflugur fjölmiðill en líka, svo ég bæti við, óháður valdi auðs og áhrifaafla.

Ríkisútvarpið er mikilvægt líka í framleiðslu á leiknu efni sem vonandi nær einhvern tímann til okkar mikla skáldsagnaarfs, ég er alltaf að bíða eftir seríunni miklu um Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi, og í miðlun á því efni sem þegar er til innan veggja. Sú leið sem hefur verið farin hér á landi, ólíkt löndunum í kringum okkur, að láta Ríkisútvarpið fjármagna að mjög miklu leyti starfsemi sína með auglýsingum hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar, bæði fyrir það sjálft og einkaframtakið. En Ríkisútvarpið getur ekki farið af auglýsingamarkaði án þess að því séu tryggðar tekjur á móti. Við þurfum ekki að styrkja einkarekna fjölmiðla með því að veikja Ríkisútvarpið.

Fjölmiðlar búa við margvíslegar ógnir eins og hér hefur komið fram. Mig langar að lokum að nefna tvennt: Rannsóknarblaðamenn búa við þá sífelldu ógn sem smásmuguleg meiðyrðalöggjöf er hér. Og hitt sem ég vil fá að nefna er rekstrarskilyrði minni sjónvarpsstöðva sem gegna mjög mikilsverðu hlutverki. Þar nefni ég sérstaklega stöðina N4 á Akureyri sem hefur ekki opinberan fjárstuðning og heldur ekki dreifikerfi en hefur sannað gildi sitt.