150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[15:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu. Mér er ánægja að taka þátt í henni. Þingmaðurinn óskaði eftir umfjöllun um biðlista í meðferð, umfjöllun um ópíóíða, amfetamín og kókaín ásamt því að fjallað yrði sérstaklega um dauðsföll vegna meintrar lyfjaeitrunar.

Ég kem í fyrsta lagi inn á biðlista í meðferð, en eins og fram kemur í framsögu hv. þingmanns er Vogur ein umsvifamesta meðferðarstofnun landsins við áfengis- og vímuefnafíkn og samkvæmt upplýsingum þaðan eru nú 700 einstaklingar búnir að óska eftir innlögn á Vog. Til viðbótar við beiðnir sem koma frá einstaklingunum sjálfum koma beiðnir frá fagaðilum innan heilbrigðis- eða félagsþjónustunnar, frá geðdeildum Landspítala og barnaverndarnefndum sveitarfélaganna. Biðlistinn er öðruvísi byggður upp en biðlistar almennt í heilbrigðisþjónustunni þar sem einungis fagaðilar leggja mat á viðkomandi heilbrigðisvandamál og skrá einstaklinga á biðlista.

Landspítalinn sinnir einnig meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn og það er mikilvægt að biðlistar fyrir meðferð á Vogi og Landspítalanum séu skoðaðir í samhengi. Það er góð samvinna milli Vogs og Landspítala og ákveðin verkaskipting hefur þróast á milli þessara tveggja stofnana þar sem Landspítalinn hefur til meðferðar sjúklinga með erfið fráhvarfseinkenni og bráð geðvandamál sem oft fylgja mikilli fíkniefna- og áfengisneyslu.

Í janúar 2018 var biðlisti inn á móttökugeðdeild fíknmeðferðar á Landspítalanum átta einstaklingar en fjöldinn á biðlista á liðnum árum hefur verið um 20. Á síðasta einu til tveimur árum hefur orðið mikil aukning í mjög alvarlegum tilfellum fíknivandamála, þ.e. mikið veikra einstaklinga í erfiðum fráhvörfunum með bráð geðvandamál tengd fíkninni. Landspítali hefur sinnt og sérhæft sig í þeim hópi en einnig eru auðvitað bráðatilvik meðhöndluð á Vogi eins og skýrt er. Eins og ég hef áður komið inn á í umræðu um biðlista og áfengis- og vímuefnavanda hef ég hraðað vinnu við heildarstefnumótun fyrir meðferð við áfengis- og vímuefnavanda og sú vinna er í gangi.

Ég vil líka segja hér að samkvæmt afgreiðslu hv. fjárlaganefndar og Alþingis á síðustu fjárlögum var framlag til SÁÁ aukið um 150 milljónir fyrir árið 2019, yfirstandandi ár, og á fjármálaáætlun og í frumvarpinu fyrir árið 2020 og áfram er gert ráð fyrir að sú tala sé inni.

Í öðru lagi óskar hv. þingmaður eftir umfjöllun um ópíóíða, amfetamín og kókaín en 1. júlí 2018 tók gildi reglugerð um lyfjaávísanir, þ.e. reglugerð sem sú sem hér stendur undirritar, og afhendingu lyfja sem m.a. takmarkar ávísanir ópíóíða og örvandi lyfja. Sé notkun þeirra lyfja skoðuð ári fyrir gildistöku reglugerðarinnar annars vegar og hins vegar ári eftir að hún tók gildi kemur í ljós að dregið hefur úr ávísunum á ópíóíða um 9,2% þegar fjöldi dagskammta er skoðaður og einstaklingum sem fá ávísað ópíóíðum hefur fækkað um 5,8%. Það dregur úr þessum lyfjum og fækkar þessum einstaklingum. Það hefur dregið úr notkun örvandi lyfja um 3,6% á sama tímabili sé fjöldi dagskammta skoðaður en það er þrátt fyrir að einstaklingum sem þiggja þá meðferð hafi fjölgað um 8%.

Hvað amfetamínnotkun varðar er aðeins lítill hluti hennar til kominn vegna lyfjaávísana. Þó hefur dregið úr notkuninni um 14% og einstaklingum sem nota amfetamín hefur fækkað um 9% samkvæmt tölum frá embætti landlæknis þannig að þarna sjáum við beinan árangur. Sé hins vegar litið til fjölda sjúklinga sem koma til innlagna á Sjúkrahúsið Vog vegna fíknar í örvandi vímuefni kemur í ljós að fjöldi sjúklinga vegna amfetamínfíknar er stöðugur á síðustu árum. Hins vegar hefur innlögnum vegna kókaínfíknar fjölgað og árið 2018 var 51% af innlögnum á Vog til komið vegna fíknar í örvandi vímuefni.

Í síðasta lagi vill málshefjandi fá umfjöllun um dauðsföll vegna meintrar lyfjaeitrunar. Lyfjatengd andlát eru skilgreind samkvæmt alþjóðlegri tölfræðiflokkun sjúkdóma sem óhappaeitrun, vísvitandi sjálfseitrun og eitrun með óvissum ásetningi eins og það er kallað í þessari tölfræði. Síðasta áratuginn hefur árlegur fjöldi lyfjatengdra andláta verið á bilinu 23–39 og það er erfitt að fullyrða hvort einhver marktæk breyting sé þarna á ferðinni milli ára þegar meðaltalið er ekki hærra en raun ber vitni, þó að við getum öll verið sammála um að meðaltalið sé of hátt og hvert einasta mannslíf of mikið. Lyfjatengd andlát eru að jafnaði lítið eitt tíðari meðal karla en kvenna og á síðustu árum voru að meðaltali 16 slík hjá körlum og 12 hjá konum. Sé litið til ársins 2018 urðu 37 lyfjatengd andlát og níu af þeim einstaklingum voru undir þrítugu, fjórir á aldrinum 20–24 ára og fimm á aldrinum 25–29 ára.

Ráðuneytið hefur sérstaklega leitað sér upplýsinga um skráningu á naloxone-nefúða á Íslandi sem nýtist í neyðarhjálp gegn ofskömmtun af völdum ópíóíða. Lyfið hefur nú fengið markaðsleyfi og vænta má markaðssetningar þess á næstu mánuðum. Á meðan er nefúðinn fáanlegur gegn ávísun á undanþágulyfseðli.

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað heilbrigðisvandamál en umbótastarf verður ekki unnið (Forseti hringir.) nema í samvinnu fjölmargra aðila í samfélaginu, bæði í forvörnum og meðferð. Ég hlakka til að heyra hvað aðrir hv. þingmenn hafa fram að færa í umræðunni.