150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Við erum að ræða um gífurlegan vanda og enginn veit í sjálfu sér hvenær hann getur lent í að vera staddur þeim megin borðsins, hvort sem það er hreinlega vegna tilviljunar, vegna þess að viðkomandi lendir í áfalli, lendir í slysi, lendir á biðlista og þarf að taka inn sterk verkjalyf. Það veit enginn hver er útsettur fyrir því að verða fíkill.

Við verðum þó líka að horfa á forgangsröðun. Hvernig forgangsröðum við fjármagni? Jú, við erum að tala um og ráðherrann var að tala um að búið væri að setja 150 milljónir í þennan málaflokk. (Gripið fram í: Til viðbótar.) Til viðbótar? Ókei, en hvað er t.d. verið að setja á nýjustu fjárlögum til viðbótar í fjölmiðlanefnd? Þrisvar sinnum meira, 450 milljónir. Ég spyr: Eru biðlistar eftir fjölmiðlanefnd? Liggur lífið á þar? Er einhver að deyja þar? Nei, það er hérna sem það er. Þess vegna myndi ég vilja snúa þessu við, fá 450 milljónir hingað og 150 milljónir í fjölmiðlanefnd ef yfir höfuð er þörf á svo miklum peningum þar.

Við erum alltaf að forgangsraða rangt og við höfum sýnt að við getum með forvörnum komið í veg fyrir og dregið úr öllum hlutum. Við erum búin að sýna það með því að fara með forvarnir í skóla í sambandi við reykingar, í sambandi við áfengi. Við erum að vinna þar stóra sigra og við eigum að horfa á þennan fíkniefnavanda á nákvæmlega sama hátt. Við verðum að byrja í leikskóla, við verðum að byrja með fræðslu. Þannig náum við þessu og þannig eigum við að hugsa um þetta.

Þetta er heilbrigðisvandamál, ekkert annað.