150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, fyrir að vekja máls á þessu máli sem er sannarlega mikilvægt. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað um að þetta sé nokkuð sem þarf alltaf að vera til umræðu í þinginu. Við eigum alltaf að vera að hugsa um þessi mál. Við verðum að horfa til þess að fíknivandinn er í rauninni heilbrigðisvandi eins og hver annar heilbrigðisvandi. Við þurfum að hjálpast að og hjálpa hvert öðru til að eyða þeim fordómum sem eru gagnvart þessum sjúkdómaflokki og gagnvart þeim sem eiga við hann að glíma. Það er gríðarlega mikilvægt. Til að mynda getum við þannig komist fram hjá þeim krísum sem við lendum í með sjálf okkur eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn á áðan: Er betra að setja peninginn í þetta eða er betra að setja hann í hitt? Við þurfum að fókusera á það að þetta er vandamálið. Hér eru sjúklingar sem við þurfum að hjálpa.

Það hefur verið komið inn á mikilvægi þriðja geirans í meðferð fíknisjúkdóma. Þriðji geirinn er sannarlega mikilvægur og ekki síður skaðaminnkunarúrræðið sem hann hefur staðið fyrir eins og til að mynda Frú Ragnheiður sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Í rauninni má umræðan að mínu mati kristallast í því að við þurfum að horfast í augu við vandann. Við þurfum að horfast í augu við okkar eigin fordóma og við þurfum að horfast í augu við þennan sjúklingahóp og hjálpa honum.