150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það kerfi sem bíður þeirra sem vilja hætta í neyslu er ekki margbreytilegt hér á landi. SÁÁ sinnir bróðurparti hópsins og sumir komast inn á Landspítalann en við þekkjum að ekki er einfalt að komast inn á þann stað og hefur margoft verið komið inn á það hér. Eftir sitja spurningarnar: Eru þetta bestu lausnirnar og henta þær öllum?

Ég velti því upp, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi sérstaklega í fyrri ræðu minni, að rannsóknir hafa með óyggjandi hætti sýnt fram á tengsl erfiðra upplifana og áfalla í æsku og fíknivanda síðar á ævinni, hvort við þurfum ekki að vera með fjölbreyttari úrræði fyrir fíkla. Er ekki nokkuð útséð með að sömu eða svipuð úrræði virki fyrir alla? Ég fullyrði reyndar að svo er, með fullri virðingu fyrir því ágæta starfi sem unnið er t.d. á vegum SÁÁ. Við þurfum að ná að grípa þau börn og ungmenni sem vegna áfalla eru í miklum áhættuhópi. Við megum ekki missa sjónar af því þó að vandinn raungerist ekki fyrr en síðar á ævinni, á fullorðinsárum. Við vitum af þessum tengslum. Í því ljósi vil ég minna á frumvarp okkar í Viðreisn um að sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfið okkar. Það frumvarp fékk á síðasta þingi mikinn stuðning í þingsal, m.a. meðflutning úr öllum þingflokkum, en hlaut þó ekki afgreiðslu fyrir vorið. Það að setja sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið væri sannarlega mikilvægur liður í því að bregðast við þeirri staðreynd sem tengsl áfalla í æsku og misnotkun fíkniefna eru.

Svo langar mig að lokum til að minna á mikilvægi ýmiss konar skaðaminnkunarúrræða. Þar mættum við gera betur. Við erum að fara að gera betur ef marka má mál sem eru núna á lista, það verði sem sagt vonandi breyting á til batnaðar, m.a. með fyrirhugaðri opnun neyslurýma sem vonandi næst í gegn sem fyrst og afglæpavæðingu á vörslu fíkniefna. (Forseti hringir.) Það mál er enn og aftur á dagskrá. Þetta hangir allt saman. Við erum ekki að tala um eitt úrræði sem hentar öllum. Við verðum að fara að hugsa fram hjá þeirri girðingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)