150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef ég hef valdið hv. þingmanni vonbrigðum í umræðunni en mér hefur fundist hún góð. Það eru allnokkrir punktar sem mig langar til að nefna í lokin og segja hér, bæði við hv. málshefjanda og aðra þingmenn, að þetta eru gríðarlega mikilvæg atriði sem koma upp í umræðunni, bæði sem lúta að forvörnum en ekki síður því sem lýtur að samspili áfalla og fíknar. Sem betur fer hefur sú umræða verið mjög vaxandi á allra síðustu misserum og tengsl áfalla í æsku og líkamlegrar heilsu á efri árum. Sem betur fer er heilsugæslan orðin sífellt meira meðvituð um þetta samspil.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talaði um skaðaminnkun og fleiri hafa gert það, m.a. hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson. Við verðum að passa okkur á því að umræðan sem við erum með hér einkennist ekki í raun af fordómum sem er sú nálgun að það sé einungis ein einföld leið til að bjarga málinu og það sé að fjölga rúmum eða bæta peningum inn í eitthvert eitt tiltekið úrræði. Það er því miður ekki þannig því að þá væri búið að gera það.

Mig langar að segja líka að á Vogi hefur verið unnið markvisst að því að skapa forgang fyrir þá sem eru í brýnastri þörf, ungmenni undir 20 ára, fólk sem leitar meðferðar í fyrsta sinn, fólk sem ekki hefur verið í innlögn síðustu tíu ár; vegna félagslegra aðstæðna, barnaverndarmála, þungunar eða annars slíks. Allt þetta fólk fær inni milli sjö og 14 daga. Það er þannig. Þetta fólk er í forgangi.

Hér var spurt hvort það væru gæðavísar eða eitthvað slíkt á Vogi, hjá SÁÁ, en það er ekki orðið svo. Markmiðið er auðvitað það og það er með heilbrigðisstefnu, sem við samþykktum á Alþingi, að allir veitendur heilbrigðisþjónustu skili gæðavísum og árangursvísum líka þannig að við sem erum kaupendur þjónustunnar fyrir hönd ríkisins sjáum hver staðan er. (Forseti hringir.)

Ég vil að lokum segja: Þetta er sannarlega heilbrigðismál en það er líka einföldun að tala bara um þetta mál sem heilbrigðismál. Þetta er verkefni samfélagsins alls, verkefni tollyfirvalda og lögreglu en líka verkefni skóla, (Forseti hringir.) heimila, fjölskyldu og samfélagsins í heild vegna þess að þetta snýst líka um forgangsröðun og gildismat. Þess vegna þurfum við að gæta að því að klára umræðuna ekki inni í einhverju einu sílói.