150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis en nefndin stendur öll að frumvarpinu ásamt áheyrnarfulltrúum Viðreisnar og Flokks fólksins. Tilefni frumvarpsflutningsins er að á síðasta þingi samþykkti Alþingi breytingar á upplýsingalögum sem fela m.a. í sér að upplýsingalög taki til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar yrði afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar verða á grundvelli þeirra.

Í samræmi við meginreglur íslensks samfélags um gagnsæi í stjórnsýslunni og um aðgang að gögnum um starfsemi stjórnvalda er með frumvarpinu lagt til að meginreglan verði að upplýsingaréttur almennings taki til þeirrar starfsemi Alþingis sem fellur undir stjórnsýslu þess. Í þessu samhengi verður að geta þess að þegar er víðtækur aðgangur að upplýsingum um starfsemi Alþingis þegar kemur að meðferð þingmála. Á það t.d. við um löggjafarstarf þingsins, meðferð fjárstjórnarvaldsins og um eftirlitsstörf þingsins. Þá hafa verið settar reglur um opna fundi fastanefnda og upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna hafa nú fyrir nokkru verið gerðar aðgengilegar á vef þingsins allt aftur til alþingiskosninganna árið 2007. Þá má enn nefna að gert er ráð fyrir að unnt verði að skoða upplýsingar um greidda reikninga úr bókhaldi skrifstofu Alþingis með líkum hætti og nú er um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins og stendur yfir vinna við að hrinda þeim breytingum í framkvæmd. Þá má loks geta þess að allt frá árinu 2008 var mótuð sú stefna af hálfu skrifstofu Alþingis að fylgja bæri ákvæðum upplýsingalaga við meðferð beiðna fjölmiðla um upplýsingar sem settar væru fram með tilvísun til þeirra laga. Upplýsingabeiðnir frá fjölmiðlum hafa að uppistöðu til beinst að upplýsingum um kostnaðargreiðslur til þingmanna og nánara fyrirkomulag þeirra og eins og áður sagði hefur nú þegar verið gerð gangskör að því að gera þær upplýsingar allar opinberar og aðgengilegar.

Ef þingsköp Alþingis eru skoðuð nánar má sjá að ávallt hefur verið greint á milli hefðbundinna þingstarfa annars vegar og stjórnsýslu þingsins hins vegar. Þannig segir í 9. gr. gildandi þingskapa að forseti Alþingis hafi æðsta vald í stjórnsýslu þingsins og í 8. gr. að beina megi fyrirspurnum til forseta á þingskjali og óska skriflegs svars um stjórnsýslu á vegum þingsins. Þá er það hlutverk forsætisnefndar að setja almennar reglur um rekstur og stjórnsýslu Alþingis, samanber 10. gr. Þrátt fyrir þessa aðgreiningu er engu að síður nauðsynlegt að afmarka nánar gildissvið upplýsingalaga gagnvart annarri starfsemi þingsins. Á það t.d. við þegar kemur að störfum þingmanna, þjónustu skrifstofu Alþingis við þingflokka, starfsemi þingflokkanna, starfsmenn þeirra og gögn sem verða til í samskiptum þessara aðila, svo sem við rannsóknarþjónustu þingsins og enn fremur um samskipti skrifstofunnar við stofnanir þess, t.d. rannsóknarnefndir. Í samræmi við nýsamþykkt upplýsingalög gerir frumvarpið ráð fyrir því að forsætisnefnd setji reglur á grundvelli 2. gr. frumvarpsins þar sem afmörkuð verði nánar sú starfsemi þingsins sem fellur undir stjórnsýslu þess. Fylgja frumvarpinu drög að slíkum reglum en við samningu þeirra var höfð hliðsjón af reglum norska Stórþingsins frá 2009 um aðgang almennings að gögnum þess.

Herra forseti. Frumvarpið felur í sér að á eftir 90. gr. þingskapa Alþingis, sem fjallar um birtingu umræðna á Alþingi og þingskjala, komi ný grein þar sem afmörkuð er nánar sú starfsemi sem fellur undir stjórnsýslu Alþingis og upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum tekur til. Í fyrri málsgrein ákvæðisins er lagt til að stjórnsýsla þingsins verði afmörkuð með formlegum hætti. Í því felst að sú starfsemi Alþingis sem felur í sér stjórnsýslu og forseti Alþingis hefur æðsta vald í falli undir gildissvið upplýsingalaga. Á það einnig við um þau mál sem forsætisnefnd og forseti Alþingis fjalla um samkvæmt þingsköpum og öðrum lögum eða samkvæmt ályktunum Alþingis og um þau viðfangsefni sem forseti eða forsætisnefnd eru falin samkvæmt ályktunum Alþingis, oft í tengslum við tiltekin tímamót í íslensku samfélagi. Í reglum forsætisnefndar er gert ráð fyrir því að kveðið verði nánar á um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis og hvernig hún verði nánar afmörkuð gagnvart þeirri starfsemi sem fellur undir hin eiginlegu þingstörf, þ.e. þeirri starfsemi sem fer fram af hálfu Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa. Ekki er gert ráð fyrir því að upplýsingarétturinn taki til skjala sem varða þingstörf Alþingis en það á við um störf þingmanna og þingflokka og enn fremur um starfsmenn þeirra og samskipti þessara aðila, til að mynda við skrifstofu Alþingis, þar með talið við rannsóknarþjónustu þingsins. Til þingstarfa geta enn fremur talist samskipti einstakra þingmanna og þingnefnda við stjórnvöld við undirbúning löggjafarmálefna. Í meðfylgjandi drögum að reglum forsætisnefndar er farin sú leið að tilgreina efnislega þær upplýsingar og þau gögn sem upplýsingarétturinn tekur til, hvaða gögn eru undanþegin upplýsingarétti og hvaða gögn er heimilt að takmarka aðgang að. Eru þessi atriði nánar rakin í 3. og 4. gr. reglnanna og í skýringum við greinarnar og bendi ég hv. þingmönnum á að kynna sér þá sundurliðun sem þar er að finna og er allítarleg og vonandi sem mest tæmandi þannig að enginn vafi leiki hér á.

Í reglunum er jafnframt gert ráð fyrir því að kveðið verði á um móttöku og meðferð beiðna um upplýsingar. Við það er miðað að beiðni um upplýsingar verði beint til skrifstofu Alþingis og að skrifstofustjóri taki afstöðu til hennar. Synji skrifstofustjóri beiðni um afhendingu gagna er gert ráð fyrir því að skjóta megi ákvörðun hans til forsætisnefndar. Er þar höfð hliðsjón af því fyrirkomulagi laga um þingfararkaup og þingfararkostnað að þingmaður getur skotið ákvörðun skrifstofustjóra um greiðslur samkvæmt lögum til forsætisnefndar sem úrskurðar um rétt þingmannsins. Við það er miðað að reglur forsætisnefndar verði birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Rétt er að árétta hér í lokin að undir stjórnsýslu Alþingis fellur ekki sú starfsemi sem fram fer af hálfu umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og rannsóknarnefnda samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir. Taka meðfylgjandi drög að reglum mið af stöðu þessara stofnana en þær njóta sjálfstæðis í störfum sínum gagnvart stjórnvöldum og Alþingi. Um aðgang að upplýsingum þessara aðila fer samkvæmt ákvæðum viðkomandi laga sem taka mið af eðli þess starfs sem þar fer fram og sérstöðu þeirra stofnana eða aðila sem starfa í skjóli Alþingis en eru að engu að síður óháðir í störfum sínum.

Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að greina frá meginefni frumvarpsins. Ég legg til að mál þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.