152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

ákvörðun um breytingu á II. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

153. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á II. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn (dýralyf).

Nefndin hefur fjallað um málið. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) ásamt bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:

1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/5 frá 11. desember 2018 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 726/2004 um málsmeðferð Bandalagsins við veitingu leyfa fyrir manna- og dýralyfjum og eftirlit með þeim lyfjum og um stofnun Lyfjastofnunar Evrópu, um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1901/2006 um lyf fyrir börn og á tilskipun 2001/83/EB um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum.

2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/6 frá 11. desember 2018 um dýralyf og um niðurfellingu á tilskipun 2001/82/EB (dýralyfjareglugerðin).

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Nefndin leggur til breytingu þannig að númer ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar komi fram í tillögugrein og fyrirsögn málsins.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

a. Á eftir orðunum „ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar“ í 1. málsl. tillögugreinar komi: nr. 371/2021.

b. Fyrirsögnin orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 371/2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn (dýralyf).

Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn í utanríkismálanefnd: Bjarni Jónsson, formaður, Njáll Trausti Friðbertsson, framsögumaður, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Logi Einarsson, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.