152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get tekið undir orð hans. Við tókum til okkar þær ábendingar sem bárust. Ég var náttúrlega ekki í nefndinni á síðasta kjörtímabili þegar þessi lög voru sett, breytingar á þeim, en eftir að frumvarpinu var vísað til nefndarinnar boðaði eftirlitsstofnunin í formlegu áminningarbréfi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins — sem sagt eftir að málinu er vísað til nefndarinnar. Um leið og málið kom fyrir nefndina tókum við þetta til athugunar. Við vorum öll sammála um það og náðum góðri lendingu og var málið m.a. unnið í góðri samvinnu við Persónuvernd til að það yrði sem best úr garði gert þannig að ekki kæmi til þess að það myndi steyta á því skeri þegar kæmi að framkvæmdinni.

Að öðru leyti tek ég bara undir orð hv. þingmanns um að það sé mikilvægt að allir séu með jöfn réttindi eins og mögulegt er.