154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

ávana- og fíkniefni.

102. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu og mér heyrist á öllu að við séum frekar sammála um hvað þurfi að gera, það þarf að afnema þessa refsistefnu, og er gríðarlega ánægjulegt að heyra það. Hv. þingmaður er í flokki sem er í ríkisstjórn og hefur þar af leiðandi mikil völd eða getur haft áhrif á breytingar á þeirri vímuefnastefnu sem hefur verið hér við lýði í allt of langan tíma. Nú er það svo að hæstv. heilbrigðisráðherra er með vinnu í gangi hjá sér að heildstæðri stefnu í skaðaminnkun. Ef niðurstaðan úr þeirri vinnu væri sú að það ætti að afglæpavæða vörslu neysluskammta þá velti ég því fyrir mér hvort hv. þingmaður telji líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja þá ákvörðun. Eftir mín ár á þingi tel ég því miður ekki líklegt að málið mitt fari í gegn, eins óskandi og það væri af því að ég held að það sé eitthvað sem þurfi að samþykkja strax. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji líklegt að við náum að stíga þetta skref á þessu kjörtímabili. Mun þingflokkur hv. þingmanns styðja tillögu um að fara af braut þessarar refsistefnu sem hefur verið við lýði?