154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:09]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða hv. þingmanns var stutt en líka efnisrýr. Hann kemur hingað upp og lýsir því yfir að hann sé andsnúinn þessu frumvarpi. Gott og vel. Ég skildi orð hans þannig að hann tali líka fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Ég er að reyna að átta mig á hvort hv. þingmaður er að tala fyrir því að það verði aftur tekin upp skylduaðild að stéttarfélögum landsins. Ef það er markmiðið að stéttarfélögin hafi marga félagsmenn, annars geti þau ekki sinnt mikilvægu hlutverki sínu, er þá ekki hreinlega rétt að mati hv. þingmanns að skylduaðild verði aftur tekin upp og félagafrelsi stjórnarskrárinnar þannig kastað fyrir róða? Skil ég málflutning hv. þingmanns í þá veru? Er hv. þingmaður sammála því sem kemur fram í dómi Mannréttindadómstólsins í máli Sørensens og Rasmussens gegn Danmörku þar sem forgangsáhrif í stéttarfélagi er lagt að jöfnu við skylduaðild? Er hann sammála því að það eigi að fara eftir dómum Mannréttindadómstóls Evrópu þannig að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu eða er hann á móti því? Kýs hann að hunsa þá niðurstöðu? Telur hann það nægjanlegt til að vega að félagafrelsi alls fólks, þar með launafólks, að tilgangurinn helgi meðalið? Þetta væri fróðlegt að fá að vita, frú forseti.