135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:58]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst rétt að koma upp og benda hv. þingmanni á að það voru sérréttindi í gangi fyrir árið 2003. Sérréttindunum var ekki komið á með lagabreytingunni 2003 eða nýju lögunum árið 2003. Það sem þá gerðist var að ráðherrum voru færð aukin réttindi, verulega aukin réttindi. Hins vegar var að örlitlu leyti dregið úr réttindum almennra þingmanna þannig að það komi hér algjörlega skýrt fram.

Þegar ég talaði um að forsendur væru brostnar fyrir sérkjörum þingmanna og ráðherra þótti mér það líka árið 2003. Það snerist ekki um að mér hafi fundist vera hugsanlega einhverjar forsendur fyrir slíku árið 2003, þvert á móti, enda greiddi ég atkvæði gegn lögunum árið 2003.

Ég taldi rétt að þetta væri alveg skýrt vegna þess að skilja mátti af ræðu hv. þingmanns að þetta hefðu verið splunkuný sérréttindi frá því ári. Það er alveg klárt frá mínum bæjardyrum séð að það hafi verið mikil mistök af þáverandi ríkisstjórnarmeirihluta að keyra þessar breytingar í gegn árið 2003 algjörlega án umræðna um grundvallaratriði. Það er eitthvað sem ég tel að þetta þing verði að leiðrétta og vinda ofan af, að snúa af þessari braut og jafna réttindi millum þings og þjóðar, eins og hv. þingmaður orðaði það áðan.