139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[11:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál til umræðu og jafnframt fyrir að fá tækifæri til að gera grein fyrir hugmyndum og áformum sem unnið er að varðandi þau atriði sem hann kom inn á og ég vakti upp umræðu um á þeim aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem fyrirspyrjandi vitnar til.

Það er alveg hárrétt að hugmyndir mínar snúast um að á fiskveiðiárinu 2010/2011 og einnig 2011/2012 geti ráðherra haft til ráðstöfunar til sérstakrar úthlutunar aflaheimildir, hvort árið um sig ákveðið magn í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa og síld og einnig að ráðherra geti ákveðið hámarksheildarmagn af skráplúru, skarkola og sandkola, þykkvalúru og langlúru sem gæti verið úthlutað svona. Þetta gæti verið ákveðinn hluti af ráðlögðu aflamagni eða hægt að fara með inn á hverja tegund. Það verður tilgreint þegar kemur fram frumvarp í þessu efni hversu mikið magn það verður.

Til viðbótar þessu er einnig vel athugandi að á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012 verði skipstjóra skips heimilt að ákveða að hluti keilu- og lönguafla skips reiknist ekki til aflamarks þess. Hugmyndin lýtur að því að sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skuli ekki vera meiri en ákveðinn hluti af þeim heildarafla sem landað er hverju sinni enda sé afli ekki fluttur óvigtaður á markaði erlendis. Þessi leið er sambærileg við svokallaðan VS-afla sem hefur það markmið að auka sveigjanleika kerfisins og minnka hvata til brottkasts.

Þegar þessi leið verður farin verður það væntanlega gert að skilyrði að keilu- og lönguafli verði boðinn upp á viðurkenndum uppboðsmarkaði og að ákveðið hlutfall af andvirði aflans renni í ríkissjóð og kæmi það þá í staðinn fyrir greiðslu gjalds fyrir þær aflaheimildir.

Ég vek athygli á því að hér er um að ræða aflaheimildir sem að hámarki gætu verið til úthlutunar gegn gjaldi. Margir þættir munu hins vegar ráða hvort það verður gert, hversu mikið magn verður þá lagt í þetta og síðan úthlutað. Gert yrði síðan ráð fyrir því að útgerðir þyrftu að greiða gjald fyrir aflaheimildirnar og gjaldið yrði, að mínum hugmyndum, fast verð á hvert kíló vegna þess að hér er um hreina tímabundna aðgerð að ræða sem gæti verið hlutfall af ákveðnu meðalvirði í viðskiptum með t.d. aflamark viðkomandi tegundar á einhverju undangengnu tímabili. Að öðru leyti mundi gilda regla um gildi aflamarks sem úthlutað er á grundvelli aflaheimildar. Ef þetta yrði að raunveruleika og heimildir nýttar sem ráð væri fyrir gert að hægt væri að setja í þennan pott, þótt á lægra verði væri, væri um umtalsverðar fjárhæðir að ræða sem ríkið gæti fengið til ráðstöfunar við okkar erfiðu aðstæður.

Ég tek hins vegar fram enn og aftur að margir þættir geta ráðið því við hvaða magn verður miðað. Í mínum hugmyndum felst jafnframt, í samræmi við markmið 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, að tekjur ríkissjóðs vegna þessa mundu renna til verkefna, t.d. á landsbyggðinni og þá sérstaklega í sjávarbyggðum til að renna styrkari stoðum undir atvinnu og byggð í landinu, og á sama hátt verði veitt aukið fé til rannsókna er stuðli að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna hér við land.

Fram hefur komið spurning um hvort ætlunin sé að skilyrða úthlutunina að einhverju leyti þeirri endurskoðun sem nú fer fram á aflareglunni. Svarið við því liggur alveg fyrir, heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða mun ekki verða á þessu fiskveiðiári. Hugmyndir mínar um þessi áform taka því til aðgerða sem yrðu settar til bráðabirgða þar til sú endurskoðun tæki gildi. Áform þessi hafa svo að sjálfsögðu ákveðna tilvísun til umfjöllunar endurskoðunarnefndarinnar um svokallaða pottaleið.

Frú forseti. Ég gæti vikið að fleiri atriðum í fyrirspurn hv. þingmanns en ég legg áherslu á að þetta er fyrst og fremst bráðabirgðaaðgerð sem yrði, ef um verður að ræða, aukning á núverandi aflaheimildum þannig að enginn verður skertur. Ég tel (Forseti hringir.) að við þær efnahagsaðstæður sem núna eru í samfélaginu verði (Forseti hringir.) næsta ár okkur mjög erfitt, frú forseti, og þá ber okkur að horfa til allra (Forseti hringir.) þátta hvað það varðar.