139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2010.

93. mál
[14:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Árið 2009 var Liu Xiaobo handtekinn og dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir það eitt að skrifa undir stefnuyfirlýsingu lýðræðissinna, stefnu sem gerir kröfu um aukið frelsi, mannréttindi og lýðræðisumbætur í Kína. Þessi maður öðlaðist heimsfrægð fyrir skömmu þegar hann hlaut friðarverðlaun Nóbels en hann er helst þekktur í heimalandinu fyrir ritstörf og fræðimennsku ásamt því að vera mikill baráttumaður fyrir lýðræðisumbótum og mannréttindum.

Í umsögn nóbelsnefndarinnar segir að Liu Xiaobo sé eitt helsta tákn viðamikillar baráttu fyrir mannréttindum í Kína. En Liu hefur gert fleira. Hann hefur jafnframt, ásamt fleiri kínverskum fræðimönnum, skrifað undir yfirlýsingu með yfirskriftinni 12 tillögur um hvernig takast má á við ástandið í Tíbet þar sem m.a. er kallað eftir því að kínverskir ráðamenn hefji samræður við Dalai Lama. Ég er í Alþjóðasambandi þingmanna frá 30 löndum sem láta sig málefni Tíbets varða og tók þátt í sambærilegri yfirlýsingu um að Liu verði tafarlaust látinn laus úr fangelsi.

Ég fagna því þessari þingsályktun frá utanríkismálanefnd og vona að ef nægilega mörg þjóðþing láti frá sér fara sambærilegar yfirlýsingar að skáldið og lýðræðissinninn Liu fái að láta að sér kveða sem friðarverðlaunahafi Nóbels.

Ég vil líka beina sérstökum þökkum til hv. þm. Marðar Árnasonar fyrir að koma þessari ályktun í þann farveg sem hún er nú og ég vil þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir snögg viðbrögð. Hver dagur í fangelsi er langur og ég hef jafnframt heyrt að kona Liu Xiaobo sé í stofufangelsi og finnst full ástæða til að vekja athygli á því að hún fái um frjálst höfuð strokið. Ég er mjög ánægð með þingið okkar. Þó að það sé margt annað sem brennur meira á varðandi okkar þjóð þá man ég svo vel eftir stórkostlega sterkri setningu frá vini mínum frá Tíbet þegar við stóðum og mótmæltum fyrir utan kínverska sendiráðið á sínum tíma. Hann sagði: Ef þú hjálpar ekki nágranna þínum að slökkva eldinn í hans húsi mun eldurinn fara yfir í þitt hús.