140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem orðið hefur um þetta mál. Hér hefur verið hreyft ýmsum hlutum sem eru alveg fullgildir sem varða skattlagningu fjármálastarfseminnar í heild sinni og starfsumhverfið í heild og hvaða áhrif eftir atvikum mismunandi tegund skattlagningar og/eða hún sem slík í heild sinni hefur, því auðvitað hefur hún áhrif. Það er alveg rétt, og ekki er hægt að draga dulur á það að tekjuöflunaráhrif þessa frumvarp eru ein meginástæða þess að það er flutt, en það er þó þannig að þetta er búið að vera til skoðunar í eitt til eitt og hálft ár að fara þessa leið hér á landi. Það hefur tengst úttekt á skattkerfinu í heild sinni og eins og ég nefndi hér í framsögu var sérfræðinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með ábendingu í þessa veru. Þetta var ein af nokkrum meginábendingum sem kom út úr því starfi. Það ásamt með mörgu öðru leiddi til þess að þessi áform voru sett í vinnslu og á fulla ferð.

Auðvitað er það þannig að með skatta- og tekjuöflunaraðgerðum eru menn oftast að reyna að nálgast fleiri markmið en eitt í senn. Þannig var það til að mynda með aðgerðir í tekjuskatti á árinu 2009 og 2010 að að sjálfsögðu voru menn að horfa til tekjuöflunarmarkmiða, að minnsta kosti að stöðva tekjufallið í tekjuskattinum. En menn gerðu um leið grundvallarbreytingar á dreifingu skattbyrðinnar til að ná fram öðrum markmiðum og fyrst og fremst þá um aukinn jöfnuð í gegnum skattkerfið. Menn hafa breytt skattlagningu hér á umferð, við höfum gert það nú á síðustu árum, gert skattkerfið grænna í gegnum það að hverfa frá fyrra fyrirkomulagi yfir í að gera losun koltvíoxíðs að andlagi bifreiðagjalda og leggja á kolefnisgjald o.s.frv. Þannig að oftast er það þú þannig að ákvarðanir um slíkt eru teknar í ljósi margra markmiða sem menn eru þá að nálgast í senn og reyna að finna eitthvert jafnvægi á milli.

Í mínum huga var það ekki megintilgangur þessa skatts svo langt því frá að í gegnum hann sérstaklega ætluðu menn sér að þrýsta á hagræðingu í bankakerfinu, hins vegar mun skatturinn að sjálfsögðu hafa þarna tiltekin áhrif þar sem andlagið er launakostnaður og gerir starfsmannahald þar af leiðandi dýrara, það er vissulega rétt. Sérstaklega mun það verða dýrt að borga mjög há laun og ofurlaun eins og viðgekkst í þessum geira. Eitt svið jafnvægisleysisins hér á árunum fyrir hrunið var auðvitað sambúð ólíkra atvinnugreina þar sem fjármálageirinn keyrði fram úr allri annarri starfsemi í landinu, yfirborgaði stórfellt í launum og gerði öðrum aðilum erfitt um vik að halda eða ráða til sín hæft starfsfólk. Að sjálfsögðu er reynt að hafa í huga líka hvaða áhrif breytingar af þessu tagi hafa.

Varðandi skattlagningu á fjármálastarfsemina í heild og þá kannski fyrst og fremst bankana sagði ég það í framsögu minni að maður væri alveg meðvitaður um að það hefði verið þyngd á hana skattbyrðin. Hún er að gera það talsvert, sérstaklega núna tímabundið vegna þess kostnaðar sem bankakerfið hefur tekið á sig varðandi umfangsmikla starfsemi Fjármálaeftirlitsins þessi missiri, vegna kostnaðar af rekstri umboðsmanns skuldara og hina sérstöku vaxtaniðurgreiðslu sem bankakerfið tekur þátt í að fjármagna á þessu ári og hinu næsta. En við gerum ráð fyrir því að það taki að draga úr þessum greiðslum aftur strax frá og með næsta ári. Ég sé ekki að það sé líklegt að við förum að reka jafnumfangsmikið fjármálaeftirlit og það er orðið núna um leið og úrvinnslu þess á fortíðarmálum og rannsóknum og öðru slíku fer að ljúka. Þá ætti okkur, miðað við stærð okkar bankakerfis, að duga eitthvað minna en þar er undir núna. Svipuðu máli gegnir um umboðsmann skuldara, jafnvel þó það embætti kynni í einhverjum mæli að verða til áfram, held ég að engar horfur séu á því að það verði jafnmikill mannskapur og jafnmikið umleikis og er akkúrat þessa mánuði.

Hin sérstaka vaxtaniðurgreiðsla, það var um hana samið í tvö ár þannig að hún fellur þá niður eftir næsta ár. Þá standa eftir kannski sérstaklega innstæðutryggingarmálin og hvernig gjaldtöku vegna þeirra verður háttað. Það hefur verið rætt að skoða það svolítið í þessu ljósi hversu hratt við færum í uppbyggingu innstæðutryggingarsjóðs. Reyndar eru ýmsar skoðanir á því hvernig það fyrirkomulag í heild sinni er að gagnast eða er líklegt til að gagnast. Við höfum rætt það okkar í milli, ég og efnahags- og viðskiptaráðherra, að fara yfir þessi starfsskilyrði fjármálafyrirtækjanna í heild. Það hefur verið ágætt samráð um vinnslu þessa máls, þannig að það fagráðuneyti sem fer með bankamál sem slík hefur verið með í ráðum.

Varðandi það sem hér var sagt fyrr um samanburð þessa við Danmörku — auðvitað fer hv. þingnefnd yfir það. Ég veit að það stendur ekki á sérfræðingum úr fjármálaráðuneyti að fara yfir það mál. Það vill nú svo til að við höfum fengið sérstaka kynningu hjá danska skattinum og sérfræðingum frá danska skattamálaráðuneytinu á þessu fyrirkomulagi í Danmörku þannig að okkar fólk á að vera nokkuð vel heima í því. Ég held að gæti einhvers misskilnings um samanburðinn sem þarna er á ferðinni. Ég árétta það sem ég áður sagði að það er ekki svo að danski launasummuskatturinn taki til allrar óvirðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Það eru hreinar undanþágur frá því í 1. gr. dönsku laganna, þannig að því leyti til verður fyrirkomulagið hér eins og þar þó að gildissvið dönsku laganna sé vissulega víðtækara en hér er lagt upp með, að minnsta kosti í byrjun.

Í aðalatriðum eru bæði dönsku lögin og íslenska frumvarpið, eða fyrirkomulagið sem hér er áformað, eins hvað varðar það að að meginstofni er skattstofninn heildarlaun og það eru engir frádráttarliðir frá því. Það er nákvæmlega eins hér og í dönsku lögunum, með þeim féll niður ákvæði um virðisaukaskattsskyldu vegna eigin starfsemi í samkeppni við aðra. Það er undanþegið í dönsku lögunum og er gert ráð fyrir því að það falli á brott úr lögum hér.

Uppgjörstímabil og svona ákveðin aðferðafræði við innheimtu skattsins er hins vegar nokkuð önnur í Danmörku. Þar er skýr munur á. Við erum að velja að fara þessa einföldu og skilvirku leið fyrir báða aðila, þá sem greiða skattinn og þá sem taka við honum, að taka þetta í staðgreiðslunni.

Ég held að það sé líka misskilningur, sem fram hefur komið einhvers staðar opinberlega, að innskattur fjármálafyrirtækja og annarra sem greiða þennan danska skatt komi til frádráttar. Ég kannast ekki við að það sé svo, heldur þvert á móti. Í dönsku lögunum er ekki heimilaður frádráttur frá skattstofni, hvorki vegna virðisaukaskatts og þar er heldur ekki tekið tillit til hagnaðar eða taps. Það gildir hins vegar um sumar aðrar greinar sem greiða danska skattinn. Það kann að hafa valdið þessu misskilningi.

Annars er nú ekki ástæða til að týna sér alveg í djúpum samanburði að þessu leyti um tæknilega hluti. Við þurfum einfaldlega að svara því hér hvernig við teljum skynsamlegast að hafa þetta. Ég tel að það standi mörg sterk rök fyrir því að þessi starfsemi leggi sitt af mörkum. Það er mjög víða verið að taka upp skatta á banka- og fjármálastarfsemi sem miða að því annars vegar að þeir leggi sitt af mörkum upp í það mikla tjón og tap sem sameiginlegir sjóðir ríkja hafa borið vegna fjármálageirans, en um leið eru menn að reyna að hafa þá skattlagningu meðvitaða til að draga úr hættunni á slysum, draga úr hættunni á ofvexti, áhættusækni og jafnvel ofurlaunagreiðslum og öðru slíku sem allt voru ósiðir hins gamla tíma sem við viljum losna við. Í því ljósi ber líka að skoða þessa hluti.

Að sjálfsögðu þarf síðan að búa þessari starfsemi stöðugt og eðlilegt starfsumhverfi, það er ekkert annað á dagskrá hér. Það átta sig allir á því ef tiltekin starfsemi af þessu tagi, sem auðvitað er bráðnauðsynleg í samfélaginu, og enginn deilir um, er íþyngt óhóflega með sköttum verður hún dýr, því að það eru notendurnir sem greiða það að lokum, þá er það spurningin um hvaða verðmiða við viljum hafa á því. Það er heldur ekki æskilegt að gera þessa starfsemi þannig að hún verði mjög kostnaðarsöm fyrir þá sem hennar þurfa að njóta. Hitt vilja menn auðvitað ekki sjá að hér sé við lýði eitthvert þannig fyrirkomulag að eigendur einkarekinna fyrirtækja á þessu sviði geti hirt út úr þeim óheyrilegan gróða á ákveðnum tímabilum og skilji svo samfélagið eftir með tapi þegar illa fer. Það er eitthvert óréttlátasta fyrirkomulag sem hugsast getur. Við ætlum að reyna að vanda okkur við að láta slíkt ekki henda aftur á Íslandi.