141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

launamunur kynjanna.

[10:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég rifjaði upp áðan fékk móðir mín að upplifa það fyrir 30 árum að yfirmaður hennar taldi ekki ástæðu til að hún fengi einhverja aukayfirvinnutíma umfram karlkyns samkennara sinn þar sem hún þyrfti ekki að sjá fyrir fjölskyldu, einstæð móðir með þrjú börn, en þá sat einmitt núverandi hæstv. forsætisráðherra á þingi. Hæstv. forsætisráðherra hefur verið ráðherra í 14 ár yfir þessum málaflokki, hún hefur verið forsætisráðherra í fjögur ár. Hvað hefur hún eiginlega verið að gera öll þessi ár? (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra segir að hún ætli að fara að skoða þetta núna, einmitt á þessum síðustu mánuðum fyrir kosningar. Nú á að fara að taka á málunum.

Í fréttum hefur verið sagt frá ýmsum sveitarfélögum sem hafa staðið sig ágætlega í því að útrýma kynbundnum launamun. Það væri því kannski ástæða fyrir hæstv. forsætisráðherra að setjast niður með stjórnendum þessara sveitarfélaga. Hún gæti til dæmis skottast suður í Reykjanesbæ og sest niður með bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Árna Sigfússyni, og spurt hann um hvernig hann hefur farið að því að lækka kynbundinn launamun (Forseti hringir.) á þeim stutta tíma, í samanburði við hæstv. forsætisráðherra, sem hann hefur verið bæjarstjóri. Það er óþolandi og (Forseti hringir.) ólíðandi að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki hafa tekið á þessu vandamáli í forsætisráðherratíð sinni.