143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara til þess að þakka þingmönnum fyrir efnislega góðar og málefnalegar umræður hér í dag. Sérstaklega langar mig til þess að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sem benti á hversu sterk hin félagslega taug Framsóknarflokksins er og hversu djúpar rætur hún á í íslensku samfélagi. Það fer þingmanninum afar vel að hrósa okkur framsóknarmönnum og vonast ég til að hann haldi áfram á þeirri braut.

Hv. þm. Helgi Hjörvar minntist á hækkun vísitölu og hafði áhyggjur af verðbólgu. Ég hafði gaman af þeirri ræðu vegna þess að mig minnir að ég hafi flutt ótal margar sams konar ræður á síðasta kjörtímabili. Síðasta ríkisstjórn lagði upp með það áður en hún hóf störf vorið 2009 að lækka verðbólguna niður í 1,6% á kjörtímabilinu. Það tókst engan veginn, langt frá því. Hún hefur legið í 4,5%.

Ég vildi líka benda á að þótt gagnrýna megi Seðlabanka Íslands og stýrivaxtaákvörðun hans er hann þó bjartsýnni á hagvöxt í landinu. Það er jákvætt og segir okkur kannski að við séum að þokast í rétta átt þótt við viljum vafalítið öll fara hraðar. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af útgjaldaþrýstingi stjórnarandstöðunnar. Hann virðist ekkert vera sérstaklega samfelldur og mér hefur reiknast svo til að menn vilji auka ríkisútgjöldin um yfir 100 milljarða sem mundi eyðileggja öll þessi markmið, og þá tek ég að sjálfsögðu inn í nýbyggingu hátæknisjúkrahússins sem var til umræðu hér í gær.

Ég legg til og vonast til þess að umræðurnar verði jafngóðar og málefnalegar og þær hafa verið í dag (Forseti hringir.) og þakka virðulegum forseta fyrir skelegga fundarstjórn.