143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og það frumkvæði sem málshefjandi hefur sýnt með því að kalla eftir því að fjárfesting verði rædd. Einn helsti efnahagsvandi okkar í dag er einmitt skortur á fjárfestingu sem leiðir til minni hagvaxtar, minni umsvifa í hagkerfinu, færri starfa, lægri tekna ríkisins o.s.frv. Á hverju ári sem fjárfesting er lakari hér en í samanburðarlöndunum drögumst við aftur úr. Fjárfestingarstigið í dag er ávísun á störf og umsvif inn í framtíðina.

Helsta spurning málshefjanda er þessi:

Ef ekki sú fjárfestingaráætlun sem áður hafði verið kynnt, hvernig á þá að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu og auka fjárfestingu?

Mitt svar er að það er vissulega mikilvægt að halda uppi fjárfestingarstigi hins opinbera á samdráttartímum sem þessum. Það er þó enn mikilvægara að skapa skilyrði fyrir almenna atvinnuvegafjárfestingu. Mér finnst í umræðu um fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem áhersla hafi um of verið lögð á þátt hins opinbera í því að halda uppi fjárfestingu með beinum fjárframlögum sem þurfti að fjármagna í gegnum fjárlög.

Um leið og ég segi þetta verð ég hins vegar að segja að mér finnst sem fyrri ríkisstjórn hafi á undanförnum árum þegar saman er tekið líklega lagt of mikið af aðlöguninni á fjárfestingarhliðina eins og til dæmis má sjá í tölum frá Hagstofunni og ég vitnaði oft til fyrir ári þegar við ræddum fjárfestingaráætlunina í tengslum við fjárlög fyrir yfirstandandi ár. Það má lesa í fjármálum hins opinbera sem Hagstofan gaf út fyrir árið 2011 að fjárfestingin á síðasta kjörtímabili fór niður í það lægsta sem við höfum séð frá seinni heimsstyrjöld. Menn ákváðu að ná aðlögun í ríkisfjármálum með því að hætta í vegaframkvæmdum, viðhaldi, alls konar stofnfjárfestingum af ýmsum toga.

Síðan kom kosningaárið 2013. Þá var eins gott að fara að hysja upp um sig brækurnar og gera eitthvað í þessum fjárfestingarmálum. Þá var kynnt til sögunnar þessi fjárfestingaráætlun sem vissulega lyfti fjárfestingarstiginu miðað við plönin en það fylgdi að ekki átti að auka byrðar ríkissjóðs í leiðinni. Af þeirri ástæðu höfum við alltaf bent á að þegar fjármögnunin skilar sér síðan ekki hlýtur að þurfa að endurskoða plönin nema taka hafi átt lán fyrir hinum auknu fjárfestingum.

Ég hef ekki heyrt menn segja að það hafi verið skynsamlegt. Það var aldrei forsendan að baki fjárfestingaráætluninni. Hvað er það sem ekki skilar sér? Arðurinn sem menn höfðu gert ráð fyrir. Vissulega skilar sér arður, en hinn aukni arður sem átti að standa undir fjármögnun áætlunarinnar hefur ekki skilað sér. Hið sama gildir um eignasöluna.

Skoðum hins vegar stöðuna á áætluninni, þessari sem gerði í upphafi ráð fyrir að 5,7 milljarðar fengjust til fjárfestinga með veiðigjaldi og leigutekjum. Það var skorið á sínum tíma niður í 4,2 milljarða. Árið 2013 eru veittir rúmlega 3,4 milljarðar til verkefna sem féllu þarna undir, samgönguframkvæmda, Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og sóknaráætlana. Árið 2014 er gert ráð fyrir rúmlega 3,7 milljörðum til þessara framkvæmda; samgönguframkvæmda, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs.

Þess vegna er ekki hægt að segja að þetta hafi allt saman verið slegið út af borðinu, en aðalatriðið er að við getum ekki tekið þessa umræðu hér á þeirri forsendu að ef ríkið ætli ekki að heimta skatttekjur af fyrirtækjum og almenningi og velta þeim út í fjárfestingu í atvinnulífinu verði engin fjárfesting. Hvað er ríkisstjórnin að gera annað? Hún er að létta álögum af fyrirtækjum, af heimilunum.

Við ætlum ekki að framlengja auðlegðarskattinn. Við ætlum ekki að fara út í stóraukna gjaldtöku í gegnum veiðigjaldið af sjávarútvegsfyrirtækjunum. Hvað gerði þetta samanlagt ef einhverri annarri stefnu væri fylgt? Jú, þetta skilur eftir rúmlega 20 milljarða sem geta einmitt nýst í fjárfestingu hjá heimilunum og fyrirtækjunum, úti í efnahagslífinu, sem við þurfum ekki að taka inn í gegnum ríkiskassann og dreifa aftur út eftir áherslum okkar þingmanna. Þessir fjármunir munu finna sér farveg annars staðar í hagkerfinu ef við bara trúum því að framtakssamt fólk í landinu viti hvernig það á að fara með fé og jafnvel betur en við þingmennirnir.

Þetta finnst mér skipta gríðarlega miklu máli um leið og ég lýsi áhyggjum af því hversu langt við erum komin niður með opinbera fjárfestingu. Ég tel að við þurfum að taka til endurskoðunar í langtímaáætlunum um ríkisfjármál hvernig við komum fjárfestingu hins opinbera (Forseti hringir.) aftur upp á eðlilegt stig.