143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

37. mál
[17:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að hafa framgöngu um þetta mál en ásamt henni erum við samtals níu flutningsmenn að þessari þingsályktunartillögu. Þetta er eitt af þeim málum sem ég hafði sérstakan áhuga á að beita mér fyrir þegar ég hafði verið kjörinn þingmaður og því fagna ég mjög þeirri umræðu sem hér fer fram og þingsályktunartillögunni sem við erum saman á.

Það er ekki amalegt fyrir okkur að ætla okkur að fá Landhelgisgæsluna á Suðurnes. Fyrirtækið er sú stofnun íslensk sem notið hefur einna mests almenns trausts íbúa þessa lands. Margoft hefur það komið fram í skoðanakönnunum hve mikið traust við Íslendingar berum til Landhelgisgæslunnar enda er þar valinn maður í hverju plássi, algjörlega. Starfsmenn Gæslunnar hafa enn og aftur sannað yfirburði sína í hverju sem þeir taka sér fyrir hendur. Þeim stendur til boða glæsileg aðstaða að Ásbrú og á Keflavíkurflugvelli og þeir eru hjartanlega velkomnir. Þar er húsnæði þannig að fyrirtæki og stofnun eins og Gæslan er vel að því komin. Þar fer loftrýmiseftirlitið fram og þar komast margar flugvélar saman í stórum flugskýlum og öll starfsemin gæti rúmast mjög vel. Þá er höfnin í Njarðvík afar heppileg fyrir skipakost Gæslunnar. Það hefur verið skoðað og á sínum tíma var talið að það mundi kosta um það bil 40–50 milljónir að gera aðstöðu fyrir varðskipin í Njarðvík en þar er friðarhöfn fyrir þau að liggja við og gott lægi.

Við Ásbrú er Varnarmálastofnun sem er orðin hluti af Landhelgisgæslunni og með sanni má segja að Ásbrú og sú aðstaða sem þar er sé sannkölluð björgunarmiðstöð landsins. Það felast líka í því mikil tækifæri að flytja Gæsluna á Keflavíkurflugvöll, meðal annars með auknu samstarfi vegna norðursjávarverkefna og Norður-Atlantshafsverkefna sem fyrirséð eru. Mér er sagt af skipherrum Gæslunnar að í framtíðinni muni nágrannaþjóðir okkar í austri og vestri sækjast mjög eftir aðstöðu á Íslandi til að fylgjast með verkefnum, siglingaleiðum og því sem er að gerast í norðurhöfum á næstu árum. Með tíð og tíma gæti Gæslan orðið lykilstofnun í björgunar- og eftirlitshlutverki á norðurhöfum í samstarfi við aðrar þjóðir sem þannig kæmu að verkefninu og gætu jafnvel að hluta orðið greiðendur þeirrar starfsemi sem þar færi fram.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur hér áðan býr Gæslan við nokkuð þröngan kost á Reykjavíkurflugvelli og er auk þess í húsnæði á nokkrum stöðum í bænum og líka suður á Ásbrú. Það er ekki hægt að tjalda til einnar nætur þegar við erum að tala um Landhelgisgæsluna.

Samkvæmt því samkomulagi sem gert var um Reykjavíkurflugvöll nýlega er hann bara til bráðabirgða næstu árin og það er ekki gerlegt, ekki nokkurt vit í því, að hefja þar uppbyggingu fyrir Gæsluna. Ég get ekki séð að nokkur glóra sé í því. Þar er húsnæði að verða gamalt og verður úr sér gengið á næstu árum en glæsileg húsakynni bíða á Suðurnesjum eftir Landhelgisgæslunni.

Hæstv. forseti. Skýrslan sem hv. framsögumaður ræddi hér áðan var á sínum tíma nánast móðgun við Suðurnes, ég leyfi mér að segja það. Allt það sem sneri að Suðurnesjamönnum og íbúum Suðurnesja var dregið niður í svaðið en hitt upphafið, allt það sem var hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái jákvæða meðferð í þinginu og að sá draumur okkar rætist að Landhelgisgæslan komi á Suðurnes innan skamms, það mun auðvitað taka sinn tíma að byggja. Ég vona að hinir mörgu frábæru starfsmenn hennar hlakki til að koma til okkar og eiga með okkur samfélag.