143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

útlendingar.

136. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heildarlög um útlendinga. Ásamt mér eru flutningsmenn tillögunnar allir þingmenn í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að undirbúa frumvarp til heildarlaga um málefni útlendinga sem leysi af hólmi lög um útlendinga, nr. 96 frá árinu 2002, og lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97 frá árinu 2002. Frumvarpið verði byggt á frumvarpi til laga um útlendinga sem lagt var fyrir 141. löggjafarþing og á skýrslu nefndar um málefni útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins frá árinu 2012 sem unnin var af innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Í frumvarpinu verði kveðið á um:

a. að réttindi til dvalar og atvinnu séu samræmd þannig að útlendingur fái aðeins gefið út eitt dvalarleyfi og að skýrt sé hvort það veitir heimild til atvinnu eða ekki,

b. endurskoðun flokka dvalarleyfa og að réttindi milli sambærilegra flokka séu samræmd, þar á meðal til fjölskyldusameiningar,

c. að réttindasöfnun til búsetuleyfis fylgi einstaklingi, ekki dvalarleyfi,

d. bætta meðferð hælisumsókna og að hætt verði að refsa hælisleitendum fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum,

e. stofnun sjálfstæðrar úrskurðarnefndar í málaflokknum.

Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en í mars 2014.“

Þannig hljóðar þingsályktunartillagan.

Í ítarlegri greinargerð sem fylgir tillögunni er gerð grein fyrir öllum þeim þáttum sem hér voru taldir upp. Það kemur fram að tillagan byggist annars vegar á skýrslu um málefni útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins sem, eins og fram kom í lestri mínum áðan, unnin var af nefnd innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis og hins vegar á frumvarpi sem byggðist á tillögum nefndarinnar og innanríkisráðherra lagði fyrir, þ.e. í mínu nafni, fyrir 141. löggjafarþing.

Hvers vegna flyt ég þetta mál? Jú, til að leggja áherslu á að þau grundvallarsjónarmið sem fram koma í umræddri skýrslu nái fram að ganga. Ég var ekki alls kostar ánægður með frumvarpið eins og það var lagt fram þótt þar hafi verið stigin mjög mikilvæg framfaraskref. Það sem ég einkum var ósáttur við var að við náðum ekki samkomulagi um það í innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu að sameina lagabálkana í einn. Ég hef vísað til þess áður í umræðu um þessi mál að bæði meiri hluti og minni hlutinn sem komu að lagabreytingum sem gerðar voru hér 2002 og síðan nefnd sem skiluðu áliti í ársbyrjun 2006 voru á einu máli um að æskilegt væri að sameina lagabálkana í einn. Álitsgerðir ýmissa aðila sem að þessum málum hafa komið og starfa við málaflokkinn voru einnig á þá leið. Ég legg áherslu á það í þessari þingsályktun, og við gerum það í þingflokki VG, að þessi afstaða verði endurskoðuð í nýju frumvarpi.

Við leggjum líka til endurskoðun dvalarleyfisflokka og réttindasöfnun og um það voru ákvæði í lagafrumvarpinu sem lá hér fyrir þinginu. Þessar breytingar lúta einkum að dvalarleyfum fyrir aðstandendur og vegna sérstakra tengsla.

Lagðar eru til breytingar á málsmeðferð hælisumsókna og kveður þar við gamalkunnan tón, sem ég hygg að við séum öll sammála um sem sitjum í þessum þingsal og höfum komið að þessum málum, að það er mjög mikilvægt að stytta málsmeðferð. Við viljum setja okkur það markmið að málsmeðferðin taki aldrei lengri tíma en sex mánuði. Síðan verði það bundið í lög að hafi hælisumsækjandi ekki fengið úrlausn sinna mála innan 18 mánaða eigi hann rétt til dvalarleyfis af mannúðarástæðum óháð niðurstöðu máls hans. Það er með öllu ófært að málin séu að velkjast í kerfinu, í sumum tilvikum árum saman, það er hreinlega ekki boðlegt. Það hefur verið reynt á undanförnum árum og er enn reynt að stytta málsmeðferðartímann en við þurfum að gera enn stórátak í þeim efnum og setja okkur þennan hámarkstíma eins og ég gat um hér.

Síðan er gert ráð fyrir því í okkar tillögum að sett verði á laggirnar sérstök kærunefnd í útlendingamálum. Það hefur einnig komið fram frá aðilum sem að þessum málum starfa. Rauði krossinn hefur ítrekað komið því sjónarmiði á framfæri og er það í samræmi við athugasemdir Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að svo ætti að vera.

Þar segir í álitsgerð, með leyfi forseta:

„Að því er varðar sjálfstæði og óhlutdrægni kærustigsins, vekur það athygli okkar og áhyggjur að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi heyrir Útlendingastofnun undir dómsmálaráðuneytið, sem síðan fer með kærumál og við beinum því þeim eindregnu tilmælum til Íslendinga að meðferð kærumála hælisleitenda verði flutt til dómsyfirvalds, sem er í raun — og ber með sér að vera í raun — fullkomlega sjálfstætt og óhlutdrægt.“

Ég vil taka það fram að nefndin sem vann skýrsluna sem ég vísaði hér til og vísaði til í þingsályktunartillögunni heimsótti Norðurlöndin. Ég held að það hafi verið tvisvar farið til Noregs til að kanna þetta mál sérstaklega. Síðan sé ég það í fjölmiðlum að núverandi innanríkisráðherra hélt til Noregs til að skoða málin fyrir sitt leyti þannig að ég vonast nú til að þetta verði niðurstaðan. Um það var síðan gerð tillaga í frumvarpinu sem lagt var fyrir á 141. þingi.

Í niðurlagi greinargerðarinnar sem fylgir þingsályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Þegar lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga voru sett árið 2002 ríkti mikil óeining um niðurstöðuna, bæði á Alþingi og í samfélaginu. Fjölmargir umsagnaraðilar lögðust gegn því útlendingalagafrumvarpi sem síðar varð að lögum og minni hluti allsherjarnefndar taldi ófært að samþykkja frumvarpið óbreytt. Hefur óeiningin að nokkru leyti litað málaflokkinn allar götur síðan, þótt svörtustu spár hafi ekki ræst og miklar betrumbætur verið gerðar á lögunum síðan. Þær tillögur sem hér er gerð sérstök grein fyrir eru settar fram með það að leiðarljósi að sátt geti náðst um nauðsynlega heildarendurskoðun laganna og sameiningu laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga. Í þessum tillögum felst því engin bylting á málaflokknum. Sumar breytinganna fela í sér lögfestingu á núverandi framkvæmd, auk þess sem réttarstaða einstaklinga sem koma frá löndum utan EES er skýrð. Tekin væru af tvímæli um í hvaða tilfellum nánum aðstandendum eða öðrum sem hafa sérstök tengsl við landið er heimil dvöl, réttur barna yrði styrktur og málsmeðferð bætt.“ — Réttur barna yrði styrktur og málsmeðferð bætt. Þetta eru lykilatriði.

„Eftir stendur að fram þarf að fara ítarleg umræða, bæði á Alþingi og í samfélaginu, um langtímastefnumótun í málaflokknum. Í þeirri umræðu þarf að takast á við ýmsar siðferðilegar spurningar sem vakna í tengslum við fólksflutninga og hvernig íslensk stjórnvöld vilja snúa sér andspænis þeim álitaefnum. Flutningsmenn hvetja ríkisstjórn og Alþingi til að leiða slíka umræðu af þekkingu og yfirvegun og lýsa sig reiðubúna til þátttöku í henni. Að sama skapi telja flutningsmenn til mikils unnið að ná sátt um þau atriði sem hér hefur verið tæpt á þannig að setja megi ný og betri heildarlög um málefni útlendinga — útlendingum, stjórnsýslu og samfélaginu í heild sinni til hagsbóta.“

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.