144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sérhagsmunir hafa sterka stöðu á Alþingi. Svo langt gengur fyrirgreiðslan að fyrir tíu árum síðan veittu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn markaðsráðandi aðila undanþágu frá samkeppnislögum. Nú þegar afhjúpað hefur verið í hvílíkar ógöngur þessi einokun er komin eru þó engu að síður engir þingmenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks eða Vinstri grænna tilbúnir til þess að afturkalla undanþáguna frá samkeppnislögum Allt er óbreytt, sérhagsmunirnir eru í meiri hluta á Alþingi.

Jafnvel frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum reyna að fela sig á bak við það að nú eigi að skoða samkeppni í landbúnaði í nefnd á vegum Kaupfélags Skagfirðinga.(Gripið fram í.) En þó að Alþingi valdi vonbrigðum í málinu er hins vegar fullkomlega ósæmilegt og til að bíta höfuðið af skömminni þegar ráðherrann reynir að skjóta sendiboðana; þegar hann fer fram með líkum hætti og Guðni Ágústsson og dylgjar um þá sem flytja fréttirnar.

Ég krefst þess af hæstv. ráðherra að hann segi hér í ræðustól hvað hann á við í fjölmiðlayfirlýsingum um tengsl fréttamanna Kastljóss. Fréttamenn Kastljóss gerðu grein fyrir tengslum sem þeir töldu að gætu orkað tvímælis og þyrfti að ræða. Það getur ekki gengið að þegar þeir uppfylla starfsskyldur sínar með þeim heiðarlega hætti sitji ráðherrann í útvarpssal og dylgi um að menn gætu nú farið að skoða tengsl starfsmanna Kastljóss.

Ef ráðherrann telur að eitthvað þurfi að ræða um tengsl starfsmanna Kastljóss í þessu sambandi er annað ósæmandi en að hann tilgreini þau tengsl og segi alveg skýrt hvað hann á við en sé ekki að dylgja um það í útvarpssal, síst af öllu þegar hann kvöldinu áður hefur setið í þeim sama þætti, Kastljósi, og haft fullkomið tækifæri til þess að ræða allar þær ávirðingar sem hann hafði vegna umfjöllunarinnar í Kastljósi (Forseti hringir.) við mennina sjálfa augliti til auglitis að þjóðinni ásjáandi. (ÖJ: … jafnaðarmenn á mælendaskrá?)