145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fólki sem er 67 ára og eldra mun fjölga um 65% á næstu 15 árum, úr 38 þúsund í 63 þúsund. Þetta er misjafnlega samansettur hópur. Sem betur fer eru margir sem hafa það alveg þokkalegt og sumir jafnvel ágætt, en allt of stór hópur fólks lifir varla á eftirlaununum sem hann fær frá Tryggingastofnun ríkisins. Þessu fólki er í raun meinað að njóta réttinda sem okkur finnst svo sjálfsögð, eins og að geta farið til tannlæknis, fengið okkur heyrnartæki ef við þurfum á því að halda eða leita réttar okkar fyrir dómstólum.

Í síðustu kjarasamningum fékkst viðurkenning á því að lágmarkslaun þyrftu að hækka í 300 þús. kr. Það virðist standa í ríkisstjórninni að veita eldri borgurum sömu hækkanir. Kannski eiga viðræður við eldri borgara sem nú standa yfir eftir að fara í loft upp eins og viðræðurnar sem nú eru í gangi við ríkisstarfsmenn.

Herra forseti. Dettur nokkrum manni í þessum sal í hug að eldra fólk þurfi ekki lágmarkslaun sér til framfærslu eins og aðrir? Mörgum þessara einstaklinga, sem þurfa jafnvel að lifa á um 190 þús. kr. á mánuði, finnst stjórnmálamenn hafa brugðist sér. Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði, hefur sýnt fram á það að hver kynslóð Íslendinga hefur skilað betra búi en hún tók við. Eldri kynslóðin á Íslandi í dag skuldar engum neitt og á sama rétt og aðrir á því að lifa mannsæmandi lífi.

Mismunun og fordómar gegn eldra fólki sjást víðar, t.d. þegar reynt er að bola út eldri starfsmönnum á vinnustöðum eða gera fólki að hætta að vinna 67 ára þó að það sé í fullu fjöri. Þetta lætur til dæmis Isavia sér sæma að gera og Íbúðalánasjóður sem bæði eru þó í eigu ríkisins.

Það er beðið eftir aðgerðum úti í samfélaginu til að breyta þessu ástandi. Það er ekki nóg að málin séu í skoðun mánuðum og árum saman. Eldra fólk sættir sig ekki við það lengur að vera aftast á forgangslista stjórnvalda kjörtímabil eftir kjörtímabil. Bjóðum fram lista og kjósum okkur sjálf, sagði hress eldri kona við mig nýlega. Er það kannski það sem þarf? (Forseti hringir.) Eru stjórnvöld að ýta eldri borgurum í sérframboð?


Efnisorð er vísa í ræðuna