145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Ísland er risastórt land, oft erfitt yfirferðar og mjög strjálbýlt. Flugsamgöngur ættu að vera sá samgöngumáti sem hentar hvað best í slíku landi. Þeir sem helst þurfa að reiða sig á innanlandsflug eru þeir íbúar sem búa lengst frá höfuðborginni og sækja ýmsa fundi, námskeið, íþróttir, þjónustu og menningu á suðvesturhornið sem gjarnan er kostað af skattfé.

En það er ekki á allra valdi að nota innanlandsflugið til að komast á milli landshluta því að fargjöldin eru svo há. Íþróttafólk reynir að ferðast á afsláttarkjörum, svokölluðum ÍSÍ-fargjöldum. Aðeins er takmarkað sætaframboð á þeim fargjöldum sem þýðir að oftar en ekki geta lið í hópíþróttum ekki ferðast saman ef greiða þarf fyrir hluta liðsins fullt fargjald. Vegna þessa er ferðakostnaður mjög íþyngjandi fyrir íþróttafélög á landsbyggðinni.

Ég prófaði að bóka hjón með tvö börn, 12 og 15 ára, frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og aftur til baka um helgina. Flugið kostaði fjölskylduna 189.200 kr. Þessi gífurlegi kostnaður hefur orðið til þess að fólk neyðist til að nota einkabílinn og eyða ómældum tíma í ferðalagið. Ríkið verður að vera tilbúið til að afsala sér tekjum til að jafna stöðu landsmanna. Starfshópur um gjaldtöku í innanlandsflugi, sem innanríkisráðherra skipaði á síðasta ári, telur mikilvægt að lækka flugfargjöld. Í skýrslu hans, sem kom í febrúar á þessu ári, er bent á þjónustugjöld og opinber gjöld sem vert er að endurskoða. Gjöldin eru farþegagjald, lendingargjald, flugleiðsögugjald, gjald vegna losunar koltvíoxíðs, skattar og gjöld á flugvélaeldsneyti og virðisaukaskattur þar sem það á við.

Verðum við ekki að finna leið til að lækka þessi fargjöld? Ein leiðin væri að skoða til dæmis hvort eðlilegt sé að börn borgi fullorðinsgjald þegar þau verða 12 ára. Börn eru börn samkvæmt lögum þangað til þau verða 18 ára og ættu því að borga barnagjald fram að þeim aldri. Einnig mætti ræða hvort við ættum að taka upp einhvers konar ungmennagjald fyrir 13–18 ára en þetta þarf að skoða.


Efnisorð er vísa í ræðuna