148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka málshefjanda, hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrir að taka þetta mál upp. Hér er mjög stórt mál á ferðinni. Þjóðarsjúkrahúsið er þannig að ákvarðanir verða varla stærri á opinberum vettvangi en um að byggja það og velja því hentuga og heppilega staðsetningu.

Ég vil líka þakka ráðherra fyrir svör hennar í umræðunni þó að eitt og annað, verð ég að viðurkenna, hafi komið mér á óvart í þeim efnum, m.a. að ráðherra skuli telja nauðsynlegt að halda því fram að það muni kosta, ef ég tók rétt eftir, 10–15 ár ef fram færi fagleg greining á heppilegustu kostum varðandi staðarval. Innsti kjarni málsins er sá að aðilar, sem hlýtur að verða að taka alvarlega sem fagmenn á sviði skipulagsfræða og læknisfræða, hafa komið fram, m.a. undir formerkjum Samtaka um betri spítala á betri stað. Þeir hafa vakið athygli á því að mjög mikilvægar forsendur sem lagðar hafa verið til grundvallar í þeim skýrslum öllum saman sem hefur verið vísað til fái ekki staðist. Hættan sem við stöndum frammi fyrir er sú að verið sé að efna til alvarlegra mistaka í máli þar sem þjóðarhagsmunir eru í veði þar sem þjóðarsjúkrahúsið er.

Því er haldið fram að spítalinn sé fullfjármagnaður, gott og vel, en mistök verða ekki betri fyrir þá sök, herra forseti, að þau séu fullfjármögnuð.