148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:00]
Horfa

Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni og einnig hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni sama dag og nefnd um betra rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla afhenti henni skýrslu sína.

Ég vil byrja á því að taka undir þau orð málshefjanda að íslenskir fjölmiðlar séu reknir með miklum metnaði. Það er alveg rétt. En frjálsir fjölmiðlar eru lýðræðinu nauðsynlegir. Þeir veita aðhald með faglegri og upplýsandi umfjöllun og fréttaflutningi. Það er því mikilvægt að stjórnvöld verji sjálfstæði og ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðla og þeir hafi fjárhagslega burði til að sinna lýðræðishlutverki sínu. Æskilegt er að hið opinbera styðji við starfsemi þeirra án þess að vega að sjálfstæði þeirra með takmörkunum á fjárveitingum, hótunum eða annarri valdbeitingu. Ég fagna þeim áformum ráðherra um að breyta skattumhverfi fjölmiðla. Ég tel það skref í rétta átt, en sú aðgerð getur bætt rekstrarforsendur þeirra án beinnar aðkomu ríkisins.

Einnig er mikilvægt að styðja sérstaklega við bakið á rannsóknarblaðamennsku enda er nauðsynlegt að blaðamenn fái svigrúm og tíma til að sinna sínu mikilvæga lýðræðis- og samfélagshlutverki. Því beini ég því til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að skoða möguleikann á sérstökum sjóði fyrir rannsóknarblaðamennsku sem hægt væri að starfrækja á svipaðan hátt og launasjóð listamanna.